60 Elías – 1. kafli Ég heiti Elías og ég hélt að ég væri venjulegur drengur. En svo, fyrir dálitlu síðan, sá ég að það gat bara ekki verið. Hérna er sögumaðurinn strax búinn að kveikja forvitni okkar með tveimur stuttum línum. Við viljum vita hvað varð þess valdandi að Elías skipti um skoðun og taldi sig ekki lengur venjulegan dreng. Hugur okkar fer aðeins á flug og við reynum ósjálfrátt að giska á hvað það gæti verið. Rithöfundar leika sér að forvitni okkar sem lesenda. Þeir vilja kalla fram þetta litla en mikilvæga orð í hausnum á okkur: HA? Um leið og við segjum HA? er forvitni okkar rækilega vakin og við viljum af öllu hjarta halda áfram að lesa, vita meira, vita hvað gerist, HA?!!! Hvað heldur þú? Hvað segir þín forvitni? Það byrjaði þannig að pabbi leit upp einn morguninn og spurði: „Er allt í lagi með þig?“ Mér fannst ég alveg vera í lagi, en til vonar og vara spurði ég: „Er ég fölur?“ Þá spurði pabbi og var ægilega áhyggjufullur í röddinni: „Líður þér illa?“ „Nei,“ svaraði ég. „Mér líður vel.“ Pabbi lagði næstum frá sér blaðið og spurði: „Ertu viss?“ Auðvitað hættir maður að vera viss um að manni líði vel ef pabbi manns, sem er bæði stærri og veit meira, heldur að manni líði ekki vel. Maður heldur strax að hann viti eitthvað sem maður veit ekki sjálfur. Svo ég svaraði: „Ég held það.“ Í því kom mamma inn í eldhúsið þar sem við sátum og pabbi sagði henni að ég væri ekki viss um að mér liði vel. Mamma settist, greip um höndina á mér og spurði: „Hvar finnurðu til?“ Ég fann hvergi til áður en hún spurði. En auðvitað fer maður að leita inni í sér, því kannski finnur maður pínulítið til einhvers staðar og hefur ekki tekið eftir því, en það sést samt utan á manni. Þegar ég var búinn að leita dálítið sagði ég: „Ég finn obbulítið til í hendinni af því að þú heldur svo fast um hana.“ Mamma lét höndina á mér detta á borðið og sagði: „Ætli það sé ekki best að mæla þig.“ Margar barna- og unglingabækur fjalla um þetta: Að í raun og veru viti börn og unglingar betur en foreldrar sínir og séu þeim á margan hátt fremri. Kannski er Lína langsokkur frægasta dæmið um þetta? Manstu eftir fleirum?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=