Kveikjur

59 Í texta bókarinnar hljómar Elías eins og hann viti betur en foreldrarnir – hann kemur í raun fram við þau og talar við þau eins og kjánaleg börn. Þetta er eitt af því skemmtilegasta við stílinn í bókinni; hvað Elías virkar fullorðinslegur, jarðbundinn og raunsær í samanburði við foreldra sína. Elías ræður öllu! En eru foreldrarnir í raun og veru svona miklir kjánar? Það er ekki svo gott að segja. Þú þarft nefnilega að muna að sá sem segir söguna er Elías sjálfur. Elías ræður! Hann er sögumaðurinn og sögumaðurinn stjórnar öllu! Allar upplýsingar sem við fáum (t.d. um atburðarás og persónur) koma í gegnum hann og hans sjónarhorn. Þegar maður les bókmenntatexta skiptir öllu máli hver segir söguna og hvaða viðhorf hann hefur. Orðið „bókmenntatexti“ hljómar svolítið uppskrúfað og hátíðlegt. Þú heldur kannski sjálfkrafa að þú gerir ekki mikið af því að lesa „bókmenntatexta“? Það er mikill misskilningur, því að orðið nær yfir allan skáldaðan texta. Líka Andrés Önd og Kaftein Ofurbrók. Bókmenntatexti er misalvarlegur – stundum ristir hann grunnt og er léttur og skemmtilegur en hann getur líka verið fullur af heimspekilegum vangaveltum. Stundum er sögumaðurinn aðalpersónan sjálf en stundum er eins og sögumaðurinn standi utan við söguna og lýsi atburðunum eins og hann sér þá birtast. Sögumaðurinn getur einnig verið heiðarlegur eða rætinn, fyndinn eða dramatískur, skorinorður eða ruglingslegur, ljóðrænn eða beinskeyttur í tali og hugsun. Hver segir söguna, hvaða viðhorf hefur hann og hvað vakir fyrir honum? Að skoða sögumanninn og forsendur hans skiptir öllu máli þegar maður les texta (líka í fréttum og auglýsingum) en ekki síst við lestur bókmenntatexta. Hafðu það sérstaklega í huga við lesturinn á fyrsta kafla bókarinnar um Elías. Atburðarás er það sem gerist í sögunni í réttri röð, eins og það kemur fyrir þar. Sjónarhorn er í stuttu máli hvaðan sögumaðurinn sér söguna, hvar hann stendur og hvað hann veit um það sem gerist. Sögumaður er sú rödd sem segir söguna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=