Kveikjur

21 Við lítum nefnilega stundum á íslenskuna eins og hún sé sjálfsagður hluti af okkur. Eins og hún sé bara eitthvað sem þurfi ekki að hlúa að. En það er því miður ekki rétt. Jafnvel þótt íslenskan búi í okkur og við kunnum betur á hana en okkur grunar getur hún samt rýrnað og tapað styrk sínum ef við tökum hana ekki alvarlega. Það má líkja tungumálinu við upphandleggsvöðvana. Við fæðumst með þá og ef við notum þá daglega haldast þeir í ágætu formi af sjálfu sér – en ef við gerum enn betur og ákveðum að styrkja þá með þjálfun getum við margfaldað styrk okkar. Með iðkun og þjálfun verðum við sterk; við sækjum styrkinn inn á við; við sækjum um styrk hjá okkur sjálfum og fáum styrkveitingu til að halda áfram og verða enn sterkari og þannig hættum við að vera óstyrk í samskiptum … (geturðu haldið áfram með þennan orðaleik og fimmaurabrandara?) Lestur snýst um að bera kennsl á stafi og hljóð og tengja allt saman í orð og setningar; merkingu. Við erum alltaf að kóða og afkóða. Eftir því sem við erum sleipari í þessari afkóðun verður auðveldara fyrir okkur að dýpka hana, læra ný orð og nýtt samhengi. Það að vera góður lesandi felur í sér að geta haft mismunandi lestrartækni á valdi sínu. Að geta lesið hratt og örugglega þegar við á, bæði upphátt og í hljóði. Að geta sökkt sér í efnið og lesið af skilningi þegar það reynist nauðsynlegt. Að geta numið þær upplýsingar sem þarf úr textanum á sem auðveldastan máta, t.d. með því að skima yfir hann. Því meiri fjölbreytni í lestri sem við ráðum yfir því betri lesendur verðum við! Ég þarf að byggja upp þol með því að lesa texta mjög reglulega. Ég þarf að stunda teygjur og slökun – með því að læra að gleyma stað og stund, gleyma amstri hversdagsins í heimi bókarinnar og læra að njóta lestrarins. Ég þarf að geta hlaupið langhlaup – að geta sýnt þrautseigju og komist í mark með því að klára ítarlega blaðagrein eða langa bók.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=