Kveikjur

20 Iðkun er ákvörðun Þetta hafa margar spakar manneskjur sagt. Iðkun er ákvörðun. Það þýðir að þú tekur meðvitaða ákvörðun um að stunda vissa iðju í lífinu. Það er nefnilega ekki nóg að segjast vera eitthvað – ef maður er ekki að stíga sjálf skrefin. Kannski áttu vinkonu sem segir við alla að hún hafi mikinn áhuga á fótbolta – en samt fer hún aldrei á leiki eða sparkar sjálf í tuðruna. Kannski áttu frænda sem segist vera mjög umhverfissinnaður og hafa mikinn áhuga á umhverfismálum – en samt flokkar hann ekki heimilissorpið og setur það í endurvinnslu. Iðkun er ákvörðun sem maður fylgir eftir með markvissum skrefum og meðvitund um eigin gjörðir. „Ég vil ná árangri. Til að gera það þarf ég að iðka íþróttina. Ég tek hér með ákvörðun um að iðka íþróttina mína fjórum sinnum í viku. Sama hvað tautar og raular mun ég setja æfingarnar í forgang.“ Sá eða sú sem skilur að læsi er samfélagslega mikilvægt tekur að sama skapi ákvörðun um að þjálfa sig í íslensku og notkun hennar og ákveður að þjálfa sig – til dæmis svona: Ég næ árangri með því að þjálfa mig, helst á hverjum degi. Ég þarf að framkvæma styrktaræfingar – með því að auka við orðaforðann, auka málskilninginn, öðlast skilning á mismunandi orðræðu og bæta lestæknina. Ég þarf að kunna spretthlaup – að geta lesið styttri texta hratt og skimað í honum aðalatriðin.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=