Kveikjur

157 Þegar íslensk bókmenntasaga er skoðuð er því miður ekki um auðugan garð að gresja í ljóðum eftir konur. Meirihluti allra bókmenntatexta sögunnar er eftir karla, rétt eins og verk í öðrum listgreinum. Enn í dag hallar á konur í þessum efnum en sem betur fer hafa tímarnir breyst til hins betra. Ljóð Theodoru Thoroddsen er merkilegt fyrir efnistökin og hvernig hún lýsir hörðum veruleika kvenna. Taktu sérstaklega eftir því hvernig orðið ‚staga‘ kemur endurtekið fyrir í ljóðinu. Ef þú lest það upphátt kemur líka skýrt í ljós að takturinn, stuðlarnir, höfuðstafirnir og rímið gefa því slagkraft – það gæti meira að segja hentað vel sem rapptexti. Allir hafa í sér ljóð Allt bendir til þess að allar manneskjur hafi ríka tjáningarþörf; líka börn og unglingar. Þess vegna er hægt að fullyrða að allar manneskjur hafi einhvern tímann ort ljóð í einhverju formi. Eitt ljóð, tíu eða hundrað. Allir hafa prófað. Flestir hafa hætt, einhverra hluta vegna. En allir hafa reynt. Hefur þú ekki einhvern tímann samið ljóð? Einhvern tímann sett saman vísu í gamni, þótt þú hafir hugsanlega ekki skrifað hana niður eða leyft nokkrum manni að sjá eða heyra? Leikið þér að vera skáldleg(ur) í tali eða hugsun? Því það að skrifa ljóð er fyrst og fremst leikur með orð; leikur með eðli orða, áferð þeirra og hljóm. Og það er rosalega gaman, þegar maður uppgötvar hvað hægt er að segja mikið með fáum orðum, bara með því að stilla þeim upp á ákveðinn hátt. Skoðum hvað hægt er að gera: Ljóðmælandi er sá sem talar í ljóðinu, líkt og sögumaður í bókmenntatexta. Mundu að höfundur er eitt og ljóðmælandi og sögumaður er annað.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=