Kveikjur

13 Finnst þér þetta flókið? Skiljanlega! Þetta er ekki einfaldasta mál í heimi. En þetta er jafnframt eitt það allra mikilvægasta sem þú ákveður að læra í lífinu. Þetta er eiginlega eins og að læra að anda rétt, læra að synda til að geta bjargað lífi sínu í „lífsins ólgusjó“, læra að bjarga sér, læra skyndihjálp, læra að gera að eigin sárum til að geta læknað sig og læra að forðast þær gryfjur sem leynast í lífinu og allir geta dottið ofan í og meitt sig. Fyrsta skrefið í því að ná tökum á læsi er í rauninni mjög einfalt mál. Af hverju? Vegna þess að allt sem snýr að læsi veistu nú þegar. Allt sem snýr að læsi býr þegar í þér. Allt. Ekki bara sumt. Allt. Þessari bók er einfaldlega ætlað að minna þig á allt sem þú veist og kannt nú þegar. Hver einasta manneskja er snillingur í greiningu, lestri og endursköpun. Og það er hægt að sanna með sáraeinföldu dæmi. Á venjulegum degi opnarðu tölvuna, kveikir á vafranum og spjallar við vini og ættingja á samfélagsmiðlum. Þú ferð inn á heimasíður vina og sérð þar ýmislegt fyndið og skemmtilegt. Svo ferðu inn á fréttasíðu og sérð mynd af hundi undir fyrirsögninni: – Sækist eftir ráðherraembætti – Þú hlærð, klippir skjámyndina og póstar henni með orðunum: „Ég vildi að hundurinn minn væri svona metnaðarfullur!“ „Lækin“ streyma inn og aðrir pósta jafnvel svipuðum bröndurum eða skemmtilegum myndum. Hvað gerðist þarna? Þú sást venjulegar upplýsingar sem höfðu enga sérstaka merkingu. En svo sástu að í þeim lágu óbein skilaboð, að þarna lá einhver skrýtin og fyndin merking. Þú settir upplýsingarnar í samhengi við þinn eigin raunveruleika, endurskapaðir þær og miðlaðir þeim til vina þinna í búningi sem þér fannst líklegt að þeir myndu fíla. Þetta gerist þúsund sinnum á hverjum degi hjá öllum unglingum landsins og fullorðnum líka. Fjölmargar vinsælar heimasíður snúast meira og minna um þá list að pósta einhverju fyndnu, áhugaverðu eða skrýtnu sem maður finnur á netinu – að finna eitthvað, gefa því nýja merkingu með því að gefa því nýjan titil og setja í nýtt samhengi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=