143 myndi velja. Hún er einhvern veginn ekki alveg týpan fyrir bleik blóm. Eða hvað? Hann beygir sig eftir pennaveskinu og réttir það svo í átt til hennar. – Gjörðu svo vel. Átt þú þetta ekki? – Takk, svarar hún. Hún roðnar aftur. Mikið vildi hann óska að hann þyrði að segja hvað honum finnst það sætt. En hún myndi örugglega halda að hann væri að stríða henni. Hann fer að skápnum sínum og gætir þess vandlega að líta ekki um öxl, horfa ekki á hana þar sem hún er að baksa með bækurnar og töskuna. Þau eru líklega með skápana sína rétt hjá hvort öðru. En hvað það er eitthvað svona High School Musical. Hann leyfir ekki brosinu að koma fram á varirnar en það kitlar hann að innan og hann er í góðu skapi alla leiðina heim. Til að sýna fram á að Tristan og Íris Sól hugsi á svipaðan hátt notar höfundur tvö atriði sem þau hugsa bæði um á ganginum hjá skápunum. Hvaða atriði eru það? Hvað gefur þetta í skyn fyrir okkur sem lesendur? Eftir þessa fremur stuttu kafla hafa verið kynntar til sögunnar tvær manneskjur sem hafa áhuga hvor á annarri – í laumi. Finnurðu spennuna sem myndast hjá þér sem lesanda? Þú vilt vita hvort þau ná saman að lokum. Og þú vilt vita hvernig það atvikast – hvernig sagan þeirra hljómar. Um það snúast töfrarnir í bókmenntum – þá staðreynd að við viljum alltaf vita meira. Nöfn aðalpersónanna eru vísun í frægt ævintýri. Hvaða ævintýri? Ef þú rannsakar málið geturðu kannski komist að því hvert sagan gæti hugsanlega þróast. Kannski er Hjartsláttur nútímaútgáfa af þessu sama ævintýri? Eða kannski er bókin útúrdúr eða útúrsnúningur – kannski byrjar höfundur að notast við svipaðar aðstæður og í ævintýrinu en fer allt aðra leið? Það er a.m.k. mjög algengt í bókmenntum og listum að höfundar notist við gamlan efnivið. Að skrifa mannlýsingu Rifjaðu upp allt sem þú manst um Tristan og Írisi Sól (útlit, skapgerð, týpa) án þess að kíkja aftur á textann. Settu saman mannlýsingu um hvort þeirra fyrir sig. Ein vel þekkt mannlýsing úr íslenskri bókmenntasögu er lýsingin á Kjartani úr Laxdælu. Lestu hana og notaðu tóninn í henni til að skrifa þína eigin mannlýsingu. 2. Ást er … Semdu fimm yfirlýsingar þar sem þú botnar setninguna Ást er … Berðu þig saman við bekkjarfélaga. Voru yfirlýsingar ykkar svipaðar? 1.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=