139 atriðum sem segja til um það hvernig persónan er í raun og veru. Taktu smástund í að hugleiða það sem þú veist nú þegar um Írisi. Loksins er þessi skóladagur á enda. Íris tínir saman bækurnar og gengur frá í töskuna sína. Nú verður hún svo sannarlega níðþung. Það er víst réttast að athuga hvort hún geti ennþá náð að leigja skáp undir dótið sitt. Skáparnir eru ekki nægilega margir fyrir alla nemendurna og oftast er búið að leigja þá alla út strax í skólabyrjun, en það er þess virði að athuga hvort einhver er eftir. Kristinn húsvörður er frekar þumbaralegur að venju en leggur samt frá sér kaffibollann og teygir sig í skrána yfir skápaleiguna. – Jú, það er einn eftir, segir hann. – Sá síðasti. Þú varst heppin. Íris borgar þúsundkall í tryggingu og fær afhentan lykil. Eins gott að hún var með peninga á sér, annars hefði hún misst af skápnum. Skápurinn er númer 113. Af hverju er skápurinn númer 113? Á það að hafa áhrif á söguna, jafnvel fá þig til að hugsa um eitthvað ákveðið? Hvað? Íris bisar við að koma lyklinum upp á hringinn með útidyralyklinum sínum meðan hún gengur meðfram skáparöðinni í ganginum. Ólin á þungri skólatöskunni skerst óþægilega ofan í öxlina og þegar hún reynir að laga hana til rennur hún niður og taskan dettur í gólfið. Auðvitað hefur hún ekki lokað henni almennilega og bækur og blöð flæða út um allt. Íris stynur og krýpur niður til að tína dótið saman. Sögumaðurinn notar orðin „auðvitað hefur hún ekki lokað henni almennilega“. Hver er það sem í raun segir eða hugsar orðið „auðvitað“? Er þetta hluti af innra samtali Írisar? Hvers vegna notar hún þetta orð? – Gjörðu svo vel, átt þú þetta ekki? Hún lítur svo snöggt upp að hún er næstum búin að reka höfuðið í útrétta hönd Tristans. Hann er með pennaveskið hennar í hendinni. Þetta er eldgamalt pennaveski, hrikalega smástelpulegt með bleikum blómum. Íris finnur hvernig hún stokkroðnar. – Takk, segir hún og heldur svo áfram að setja dótið niður í töskuna. Hún laumast til að líta upp þegar hún heyrir að hann er kominn fram hjá henni. Hann opnar skáp neðar á ganginum og setur bækur inn í hann, læsir svo og heldur áfram í átt að útidyrunum. Íris bograr yfir töskunni þangað til hann er kominn úr augsýn. Hún finnur enn fyrir roða í kinnunum og hjartslætti uppi í hálsi. Hvað er eiginlega að henni? Þarf hún að verða alveg eins og aumingi þótt þessi strákur yrði á hana? Íris gengur meðfram skáparöðinni og skimar eftir númerunum. 113, þarna er hann. Hún opnar skápinn og raðar bókunum inn í hann. Þau eiga ekkert að læra heima fyrir morgundaginn svo það er best
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=