Kveikjur

136 ÍRIS – Ertu búin að sjá hann? – Hann hvern? Íris grettir sig um leið og hún lyftir töskunni upp á axlirnar. Hún er orðin þung nú þegar af öllum möppunum, stílabókunum og draslinu sem þeim var sagt að kaupa. Hvernig verður hún eiginlega þegar námsbækurnar bætast við? – Nýja strákinn. Þennan sem á víst að byrja í bekknum. Sara sá hann í gær uppi í skóla. Hann er svartur! Eydísi er auðheyranlega mikið niðri fyrir og Íris snýr sér að henni undrandi á svip. – Nei, ég er ekki búin að sjá hann. Hvernig þá svartur? – Svona dökkur og með svart krullað hár. Hann hlýtur að vera útlenskur, Sara sá hann bara, hún heyrði hann ekki tala neitt … – Hann getur alveg verið íslenskur þótt hann sé dökkur, það er fullt af krökkum sem eiga kannski útlenska mömmu eða pabba eða sem hafa verið ættleidd eða eitthvað. María í hinum bekknum á pólska mömmu en hún er samt íslensk. – Já, en þetta er samt öðru vísi. – Mér finnst það ekkert öðru vísi, segir Íris fastmælt. - Það fer ekkert eftir því hvernig maður er á litinn hvort maður er íslenskur. Hver er sögumaðurinn í þessari sögu? Er það einhver í bekknum? Kennari? Eða er sögumaðurinn eins og andi sem svífur yfir frásögninni og sér inn í allar aðstæður og persónur. Hér að framan veit t.d. sögumaður að Írisi finnst hún varla tilbúin að byrja í skólanum. Þessi tegund sögumanns gefur sögunni sérstakan blæ. Fylgstu vel með sögumanninum þegar þú lest áfram. Þegar stelpurnar nálgast skólalóðina bætist í hópinn og þær heilsa skólasystkinunum einu af öðru. Þau hafa flest haldið hópinn lengi, sum hafa verið saman í bekk alveg síðan þau byrjuðu í skóla. Í dag er fyrsti skóladagur haustsins en í gær máttu þau sækja stundaskrána og innkaupalistann. Íris kom ekki heim frá afa sínum og ömmu fyrr en um hádegisbilið í gær og fór þá beint í árlegan innkaupaleiðangur með mömmu sinni að kaupa skóladótið. Henni finnst hún varla tilbúin að byrja undireins í skólanum. Það er skrýtið að koma allt í einu í allan þennan ys og þys eftir friðinn og rólegheitin í sveitinni. Allt í einu veistu að Íris er nýkomin úr sveitadvöl hjá ömmu og afa. Breytir það áliti þínu á henni og hvernig týpa hún er? Veittu því athygli hvernig við fáum smátt og smátt meiri upplýsingar um hvernig stúlka hún er. Þetta er hluti af óbeinni persónulýsHjartsláttur eftir Ragnheiði Gestsdóttur

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=