Kveikjur

124 Það er til alls kyns öðruvísi orðanotkun en almennt tíðkast – notkun sem gæti stundum talist vera röng samkvæmt stafsetningar- og málfræðireglum eða „vont mál“ samkvæmt hefðum og viðurkenndum venjum. En ekkert af þessu er meitlað í stein. Alls staðar í skúmaskotum, bakgörðum, háaloftum og stásstofum landsins má finna notkun á tungumálinu sem er óvænt, sérkennileg og blæbrigðarík. Vindjakki, stakkur eða anorakkur? Smúla eða spúla? Djúsinn eða djúsið? Sykrið eða sykurinn? Peningaveski eða budda? Tissjú eða eldhúsrúlla? Klósettpappír eða skeinir? Ef maður leyfir sér að leika með tungumálið kemur í ljós að margt gengur fullkomlega upp, jafnvel þótt það gæti talist „vitlaust mál“. En hver segir að það megi ekki leika sér og finna upp nýjar leiðir til að tjá sig, á meðan maður vandar sig líka og reynir að fara eftir reglunum sem gilda? Oft segjum við „hvað er að þér, hvað er málið, hvað er í gangi?“ En af hverju ekki að segja stundum: Hvað er íðér? Hvað er áðér? Hvað er meððig? Hvað er í málinu? Hvað er í ganginum? Hvað er í ganginum hjá þér? Og svo framvegis, þar til allir sniðugir útúrsnúningar hafa fundist. Reyndu að finna fleiri! Hvað þýðir orðið útúrsnúningur eiginlega? Hverju er verið að snúa? Og út úr hverju? Er tungumálið kannski búið til úr gormum eða spírölum og köplum og snúrum? Gott hjá þér! Af hverju ekki að segja stundum: Gott meðig! Gott íðér! Gott mál! Gotteríðér! Og svo framvegis, þar til allir sniðugir útúrsnúningar hafa fundist … geturðu fundið fleiri?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=