118 Markmiðið með þessum kafla er að skilja að tungumál eru flókin kerfi sem urðu samt til á einfaldan hátt – nefnilega þannig að einhvers staðar var ákveðið að einhver ákveðinn hlutur ætti að bera ákveðið nafn. Og svo koll af kolli. 7. kafli Hvað á tungumálið að þýða? „Tey lupu murrandi út úr skýmaskotum og royndu at fanga ein óvita, pína hann, happa og ræða. Og sjálvandi vóru bakbeist í Nábúlagnum. Tvey enntá. Svarti Helgi og Bergur kukk.“ Hvað á tungumálið að þýða? Hvað þýðir tungumál? Hver þýðir tungumálið? Og hver þýddi eiginlega tungumálið í gamla daga – hver var í nefndinni sem þýddi orðin frá einni tungu yfir á aðra? Hvaðan kemur tungumálið? Einhvern tímann í fyrndinni benti einhver á hlut og gerði tiltekið hljóð og allir urðu sammála um að þetta hljóð passaði vel við hlutinn. Síðar meir fóru menn að velta því fyrir sér að þessi hljóð gætu átt sér ytra form – að þau gætu litið út á ákveðinn hátt. Og þannig urðu bókstafir og orð til. Mörg þúsund árum síðar eiga allar þjóðir sitt eigið tungumál. Tungumál skiptast í ákveðnar ættir. Íslenskan tilheyrir t.d. þeirri grein indóevrópska frummálsins sem nefnd er germanska og þar eru fjölmörg önnur tungumál, s.s. Norðurlandamálin, þýska og enska. Þess vegna þekkjum við mörg orð í nýju tungumáli, jafnvel þótt við höfum enga þekkingu á því.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=