Kveikjur

112 3. Lestu vel þennan texta úr bókinni Árið 1918. Hver eru lykilatriðin í honum? Endurskrifaðu hann með eigin orðum og greindu aðeins frá því sem þú telur skipta mestu máli. Líf í sveit Árið 1918 voru torfbæirnir algengasti húsakosturinn í sveitum landsins. Þeir voru af ýmsum gerðum, allt frá reisulegum burstabæjum til lágreistra kota. Í smæstu og hrörlegustu torfbæjunum var varla hægt að standa uppréttur og vistarverurnar voru dimmar, kaldar, rakar og þröngar. Stundum voru jafnvel kýr hafðar á neðri hæð bæja þar sem fólk bjó í risinu. Timburhús, gjarnan klædd bárujárni, komu í stað torfbæjanna hjá efnameiri bændum. Tíðasti og alvarlegasti galli nýju timburhúsanna var hversu köld þau voru. Þau voru oft illa einangruð og upphitun af skornum skammti. Lífið til sveita einkenndist, líkt og á fyrri öldum, af striti og streði. Mest var vinnan á meðan heyskapur stóð yfir en þá gat vinnutíminn farið allt upp í 16 tíma á sólarhring. Í skammdeginu hafði fólk einnig nóg að gera. Unnið var við umhirðu á búfénaði, ullarvinnu, saumaskap og matargerð. Margt vinnufólk átti í raun engar eigur en vann fyrir mat, húsaskjóli og lágum launum. Tómstundir voru af skornum skammti en ungmennafélagshreyfingin hvatti unga fólkið til að taka höndum saman og rækta heilbrigða sál í hraustum líkama. 4. Hér er texti úr bókinni Mannslíkaminn. Hvernig skýringarmynd myndi henta vel með honum? Lestu textann vel og teiknaðu síðan skýringarmynd við hann eða notaðu netið til að finna mynd við hæfi. Taugafrumur geta flutt taugaboð Taugakerfi okkar er gert úr aragrúa taugafrumna. Í sameiningu mynda þær flókið net sem getur sent boð um líkamann og tekið á móti boðum. Hver taugafruma er gerð úr frumubol og grönnum taugaþráðum. Frumurnar geta flutt veik rafboð sem kallast taugaboð. Taugaboðin berast til frumubolsins með stuttum taugaþráðum sem kallast griplur. Boðin berast svo áfram til annarra taugafrumna eftir löngum taugaþræði sem kallast sími. Síminn greinist í endann og þar verða margir símaendar. Sumir símar eru bara fáeinir millimetrar á lengd, en aðrir geta verið meira en metri á lengd. Boðin berast hraðast eftir gildum taugasímum sem hafa um sig hlífðarlag úr fitu. Þar geta boðin farið meira en 100 metra á sekúndu, yfir 360 kílómetra á klukkustund.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=