9 Í Kveikjum er fjallað um mjög margar og ólíkar hliðar á íslensku og við vonum að þú skiljir hversu mikilvæg og skemmtileg íslenskan er. Nú er það svo að ungt fólk er ólíkt. Sumir lesa mjög mikið af skáldsögum og ljóðum, aðrir lesa myndasögur, enn aðrir tímarit og netsíður, og svo eru þeir sem lesa lítið en horfa þeim mun meira á kvikmyndir og sjónvarpsþætti. En það vill stundum gleymast að í öllu þessu felst lestur. • Þegar þú horfir á sjónvarpsþætti ertu að lesa, greina, endurskapa, skilja og læra. • Þegar þú vafrar um á netinu, sérð eitthvað fyndið og póstar því inn á blogg eða samfélagsvef ertu að lesa, greina, endurskapa, skilja og læra. • Þegar þú segir brandara ertu að lesa í þá sem eru að hlusta og stýra frásögninni eftir þeirra viðtökum. • Þegar þú segir foreldrum þínum frá deginum í skólanum lýsirðu honum öðruvísi en þegar þú talar við vini þína – vegna þess að þið eigið ykkur annan talsmáta. Þar sýnirðu fram á að þú kunnir að beita fjölbreyttum stílbrögðum og ólíku málsniði í tungumálinu; að þú skiljir samhengi hluta í samfélaginu. Þú kannt móðurmálið vegna þess að öll þín skynfæri eru þjálfuð í því frá fyrsta degi að hlusta á umhverfið. Þú ert nú þegar skapari og höfundur Þú kannt öll brögðin í bókinni – en kannski veistu bara ekki alveg af því. Þú kannt þetta allt – en gott getur samt alltaf orðið betra. Þú getur gert tungumálið að verkfæri sem þú beitir af krafti bæði í rituðu og töluðu máli. Þetta er hlutverk þitt í íslenskunáminu og vonandi ertu til í að skella þér í slaginn og leggja nokkuð á þig.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=