Kveikjur

105 Að lesa til að læra Nám er ferli sem á sér stað innra með þér en til að allar upplýsingarnar sem þér berast verði einhvers virði þarftu að meðtaka þær á virkan hátt. Eins og kom fram í fyrstu köflum bókarinnar lestu ólíkan texta á ólíkan hátt – og líka að þú miðlar á ólíkum forsendum. Athygli og meðvitundin eru lykilatriðin. Það er stórkostlegur munur á því að skima texta, lesa til að ná aðalatriðunum, lesa á dýptina eða lesa sér til ánægju. Þú getur alltaf orðið betri lesandi – en hvort það gerist er undir þér komið og líka hversu hratt það gerist. Þú þarft líka að aðlaga þig að nýjum og breyttum tímum. Manstu hvernig þú last í sex ára bekk þegar þú varst að byrja að læra að lesa? Þú smjattaðir á hverjum einasta bókstaf og last hvert einasta orð skýrt og greinilega. Þú þurftir að gera það til að ná inntakinu – til að skilja. Ímyndaðu þér að þannig læsirðu ennþá. Hversu lengi værirðu að lesa eina blaðagrein? Eina skáldsögu? Hversu langan tíma tæki háskólanám með slíkum lestri? Það gengi aldrei upp. Eftir því sem árin líða þróumst við sem lesendur – bæði vegna þess að við getum það og líka vegna þess að við verðum að gera það. Nýir tímar koma líka með nýja tækni sem kallar á okkur að breyta lestrartækninni. Sms-skilaboð kalla á ákveðinn lestur og það gera líka tölvupóstur, blogg, samfélagsmiðlar, netsíður, snjallsímar og lófatölvur með gagnvirkum texta, tónhlöður, rafbækur, rafblöð, skjáauglýsingar og svo mætti lengi telja. Að lesa þessar ólíku birtingarmyndir tungumálsins kallar á ólíka lestrartækni. Að lesa með áætlun Samfélagið gerir sem sagt ráð fyrir því að þú kunnir að lesa á fjölbreyttan hátt. Í þessum kafla æfir þú lestur á fræðigrein. Eins og allt annað í þessari bók er fræðigreinin afar skemmtileg! Í staðinn fyrir að þú hendist bara í að lesa (og vonir það besta) skaltu setja þig í stellingar og æfa nýja nálgun. Hún er sú að brjóta lesturinn upp í forlestur, lestur og eftirlestur. Áin sem rennur er djúp og breið – í forlestrinum kannið þið aðstæður og metið verkefnið framundan, í lestrinum stingið þið ykkur á bólakaf í ána og rannsakið hvern krók og kima hennar með tólum og tækjum og í eftirlestrinum leggið þið allar ykkar niðurstöður á árbakkann áður en þið segið þetta gott í dag og farið að grilla. Orðið „nám“ er sama orð og við notum um námur og námugröft og landnám; að nema land þýðir að taka það, eigna sér það og setjast þar að.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=