Kveikjur

TEXTA- og verkefnabók í íslensku Kveikjur

Kveikjur – Texta og verkefnabók ISBN 978-9979-0-2349-4 © 2019 Davíð Hörgdal Stefánsson, Sigrún Valdimarsdóttir © 2019 Teikningar: Lára Garðarsdóttir Höfundar og rétthafar texta sem vísað er til: Sjá lista aftast í bókinni Ritstjórar: Aldís Yngvadóttir og Sigríður Wöhler Ljósmynd á kápu er af listaverkinu SemSé eftir Ragnhildi Jóhannsdóttur, sem tók myndina. Yfirlestur og ráðgjöf: Ágústa Ragnars, Ásta Sölvadóttir, Einar Daði Reynisson, Elva Traustadóttir, Guðrún Ásta Tryggvadóttir, Hanna Óladóttir, Ingólfur Steinsson, Margrét Laxdal. Yfirlesurum, ráðgjöfum og öðrum þeim sem komið hafa að verkinu eru færðar bestu þakkir fyrir aðstoðina. 1. útgáfa 2019 Menntamálastofnun Kópavogi Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Prentmiðlun ehf. – Lettland Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, án skriflegs leyfis útgefanda. Einstaklingsverkefni Paraverkefni Hópverkefni Verkefnabók Ritun Framsögn og tjáning Kveikja Skýringar á táknum

Kveikjur Davíð Hörgdal Stefánsson Sigrún Valdimarsdóttir Texta- og verkefnabók í íslensku

2 Varúð! Varúð! ............................................... 4 Gott að vita um Kveikjur ............................... 5 Pældu í þessu! ............................................. 6 Í upphafi skyldi endinn skoða........................ 7 Mikilvæg skilaboð til þín ............................ 8 Einkaþjálfun í íslensku – svona herðir þú orðavöðvana – Upphitun ......................... 10 1. kafli – „Af hverju vil ég efla læsi?“.... 12 Hvað liggur þér á hjarta?............................... 14 SMS og skammstafanir.................................. 16 Textar, textar, textar, textar ........................... 17 Iðkun er ákvörðun ........................................ 20 Ólíkar lestraraðferðir ..................................... 24 Sökktu þér ofan í yndislestur! ....................... 26 Lestur er sköpun! ......................................... 28 Að lokum – þetta um læsi ............................ 30 Sorg eða frekja?............................................. 31 2. kafli – Mikill er máttur tungunnar ...... 32 Þú vilt vanda stafsetningu og skilja málfræði … en af hverju? ............................. 35 Málfræðimoli um nafnorð ............................. 37 Kenniföll ....................................................... 40 Að lokum – þetta um máttinn í tungumálinu ............................................... 42 Vasabókarbrot Péturs Gunnarssonar.............. 43 3. kafli – Fjölmiðlar eru læsilegir.............. 44 Hvernig á að skrifa frétt?................................ 44 Málfræðimoli um fornöfn .............................. 49 Fornöfn ........................................................ 50 Fleiri fyrirsagnir ............................................ 52 Hvað segja auglýsingar í raun og veru? ......... 53 Leikur með auglýsingar................................. 54 Hvenær á að skrifa y?.................................... 55 Að lokum – þetta um fjölmiðla ...................... 56 Grasið grænna? ............................................ 57 4. kafli – „Ég skal sko segja þér …“....... 58 Elías eftir Auði Haralds og Valdísi Óskarsdóttur....................................... 58 Elías – 1. kafli .............................................. 60 Málfræðimoli um lýsingarorð ......................... 66 Gildishlaðin orð ............................................ 68 Bein lýsing / óbein lýsing............................... 71 Málfræðimoli um atviksorð............................. 74 Viðurnefni . ................................................... 76 Að lokum – þetta um bókmenntabrögð.......... 78 Bakfall . ........................................................ 79 5. kafli – Þrautir úti í mýri, álög inni í stýri (ha?) .................................... 80 Ævintýri – Sagan af Helgu Karlsdóttur .......... 82 Málfræðimoli um sagnorð ............................. 89 Orðamyndun ................................................ 91 Viðtöl ............................................................ 92 Greinarmerki ................................................ 94 Bein og óbein ræða....................................... 95 Sakamálaþraut sem byggir á ævintýraforminu ........................................... 96 Farið hefur fé betra ...................................... 99 Sögusvið . ..................................................... 100 Að lokum – þetta um ævintýri........................ 102 Ringulreið . ................................................... 103 6. kafli – Fræðilegur lestur en ekki hræðilegur ....................................... 104 Að lesa til að læra.......................................... 105 Að lesa með áætlun ..................................... 105 Blindir og heyrnarlausir eru með ofurskynfæri ................................................. 108 Bóndadóttir stjórnaði franska hernum............ 110 Punktur, punktur, komma, strik ................... 115 Að lokum – þetta um lestrartækni.................. 116 Fyrstu skrefin ............................................... 117 Efnisyfirlit

3 7. kafli – Hvað á tungumálið að þýða?. 118 Hvaðan kemur tungumálið?........................... 118 Hinn mistæki þýðandi tungumála ................. 120 Að brjótast inn í fimmaurabrandara .............. 126 Að brjótast inn í harðlæstan texta ................. 127 Kafli úr færeyskri þýðingu á íslenskum texta .. 128 Orðhlutar....................................................... 130 Að lokum – þetta um skyldleika tungumála ... 132 Náttúrubaðið ................................................ 133 8. kafli – Ást er … að týnast í orðum.... 134 Tungumálið er tilfinningaríkt ......................... 134 Hvaða brögðum beita rithöfundar?................. 135 Hjartsláttur eftir Ragnheiði Gestsdóttur.......... 136 Sjónarhorn ................................................... 146 Atburðarás ................................................... 149 Að lokum – þetta um skáldsagnatexta .......... 150 Þegar við Guðrún vorum skotnar í sama stráknum .......................................... 151 9. kafli – Unglingurinn sem ljóðaði yfir sig .............................................................. 152 Leikur að ljóðum .......................................... 154 En hvað er ljóð?............................................. 156 Allir hafa í sér ljóð ........................................ 157 Ljóðagreining ................................................ 160 Býr skáld í þér? ............................................ 162 Annars konar ljóðagreining ........................... 163 Að lokum – þetta um ljóð ............................. 164 Hvað er á gangi hér? .................................... 165 10. kafli – Öll þessi skilaboð..................... 166 Auglýsingar eiga sitt eigið tungumál............... 166 Auglýsingagreining ....................................... 170 Að lokum – þetta um auglýsingar ................. 172 Undarlegar geta auglýsingar verið …............ 173 Lokaorð – Alveg að endalokum, þetta mikilvægasta smáræði......................... 174 Gátlisti fyrir ritun............................................ 175 Textatilvísanir ............................................... 176 Skrá yfir ljósmyndir og rétthafa annars myndefnis.......................................... 176

4 VARÚÐ! VARÚÐ! Margir leikir barnanna eru fólgnir í tómri ímyndun. Börnin látast vera dýr, smiðir, siglingamenn, tröll, skólakennarar, kóngar o.s.frv. og leika ótal margt úr daglega lífinu og langt fram yfir það. Mörg börn lifa þannig árum saman að miklu leyti í heimi ímyndunarinnar, og þessi börn verða oft hneigð til að fara með ýkjur, eða umhverfa sannleikanum algjörlega. Þau venja sig á að segja sögur og ýkja þær eða skrökva þeim algjörlega upp. Það er áríðandi, að hafa gát á framferði þessara barna í tíma, og sjerstaklega verður að gjalda varhuga við að þau lesi skröksögur, sem gera ill áhrif á þau. Úr tímariti frá 1895 Grín Algert Grín Það er um að gera að passa sig að leika sér ekki með tungumálið – og ekki lesa skröksögur sem hafa ill áhrif … og ekki prófa að skrifa og skapa … og ekki búa til ný orð … og ekki … bara ekki hafa gaman af því að nota íslensku og lesa hana og leika sér með hana! Alls ekki leika sér með hana! Hún er svo viðkvæm að hún gæti brotnað … þess vegna þarf öll þessi varúðarorð.

5 Gott að vita um Kveikjur Námið í þessari bók snýst um leik, sköpun, skynjun, söfnun og rannsóknarvinnu á tungu- málinu og samfélaginu. Það þýðir að í vetur býðst þér og bekkjarfélögunum að gera alls kyns æfingar sem snúast um leik og sköpun. Þið getið t.d. fengið það verkefni að búa til orðabók, sagnabók, nafnabók eða brandarabók bekkjarins og hver veit nema þið verðið fengin til að smíða ný orð til að bjarga íslenskri tungu frá glötun? Vissirðu til dæmis að orðin hormón- ingur, ungeskja, mannlamb og miðféti eru glæný orð í íslensku? Veistu hver bjó þau til? Hópur unglinga á þínum aldri! Þetta er mikilvægasta verkefni vetrarins – að þú leyfir þér að leika með tungumálið, snúa því á hvolf, hrista, rannsaka, rífa í sundur og byggja upp á nýtt – því tungumálið er bráðskemmtilegt byggingarefni sem býður upp á takmarkalausa möguleika. Hugleiðingar Í bókinni er að finna ýmislegt sem þú getur velt fyrir þér. Stundum eru það hugleiðingar, skýringar á hugtökum eða góðar ábendingar. Þarna má einnig finna ýmsar hugleiðingar sem henta vel til umræðna í bekknum. Við hvetjum þig eindregið til að nýta hvert slíkt tækifæri til að læra enn meira – og hafa gaman af að leika þér með málið ásamt bekkjarfélögum þínum! Málfræðimolar Hér og þar í bókinni eru samantektir um nokkra orðflokka þar sem koma fram helstu einkenni þeirra, hugleiðingar um eðli þeirra og virkni og dæmi um notkun. Kynntu þér þessa mola vel. Markmiðið með þeim er að þú fáir tilfinningu fyrir mismunandi hlutverki og virkni orða og eflist þannig í íslenskunni! Námsmat Námsmatið fer fram jafnt og þétt allan veturinn og til að auðvelda þér og kennaranum að meta stöðuna safnar þú stærri verkefnum í möppu. Góða skemmtun!

6 Pældu í þessu! p Hvað kanntu í íslensku? p Til hvers þarftu að læra íslensku? p Hvað þarftu að kunna? Af hverju? p Hvað kanntu vel? p Hvað þarftu að læra betur? Af hverju? p Til hvers þarftu að þjálfa lestur? p Til hvers þarftu að geta skrifað texta? p Kanntu að skrifa mismunandi texta? p Kanntu að segja sögur? p Hvað þarf saga að innihalda? p Til hvers þarftu að læra um skáldskap? Sögur og ljóð? p Hvað græðir þú á því að hafa góðan orðaforða og nota ólík orð við ólík tækifæri? p Hvernig getur þú verið skapandi í íslensku? p Til hvers þarftu að kunna málfræði? p Til hvers þarftu að læra og æfa rétta stafsetningu? p Hvaða hag hefur þú af því að æfa framsögn og tjáningu? p Til hvers þarftu að þjálfa hlustun? p Hvað finnst þér skemmtilegast í íslensku? Af hverju? p Hvað finnst þér leiðinlegast í íslensku? Af hverju?

7 Áður en þú hefst handa er gott að lesa spurningarnar hér á síðunni á undan og kanna hver staða þín í íslensku er við upphaf áttunda bekkjar. Svaraðu spurningunum af heiðarleika því þannig nýtast þær best. Staldraðu svo við og skoðaðu hvaða atriði þú ert nokkurn veginn með á hreinu og hvaða atriði þú átt eftir að læra betur. Í lok hvers kafla eru spurningar sem þú getur nýtt þér til að átta þig á því hvað þú hefur lært. Í bókinni eru fjölbreytt verkefni sem ætlað er að auka þekkingu þína og færni í íslensku. Öll verkefni bókarinnar verða unnin í stílabók og eru hluti af námsmati þínu í vetur. Sum eru stór en önnur smá, sum eru einföld, hefðbundin og fljótleyst á meðan önnur krefjast meiri vinnu og taka lengri tíma. Passaðu vel upp á verkefnin þín og vandaðu þig strax frá upphafi við vinnuna. Í upphafi skyldi endinn skoða

Mikilvæg skilaboð til þín Tungumálið er þitt Þú varst með það í blóðinu þegar þú fæddist og fórst að hlusta á fólk tala í kringum þig á hverjum einasta degi. Þú fæddist með grunninn að tungumálinu djúpt inni í þér og á örfáum árum lærðirðu það með því að að hlusta grannt á umhverfi þitt. Tungumálið er grunnurinn að allri mannlegri hugsun og þar með allri mannlegri tilvist. Það geymir tilfinningar okkar – eða kannastu ekki við að hafa upplifað mikla gleði við það að heyra eitt orð frá einhverjum sem þér þykir vænt um? Og kannski líka mikla sorg? Bara út frá nokkrum eða jafnvel einu orði? Tungumálið geymir þetta allt á sama tíma: Tilfinningar, minningar, hugsanir, skilning, drauma, tengingar við heiminn og annað fólk. Tungumálið er tilvist okkar. Þess vegna er mikilvægt að þú skiljir tungumálið þitt – lærir að þekkja það og skynja, skilja það og nota og ekki síst að leika þér með það á hverjum degi. Okkur finnst það reyndar ekki bara mikilvægt. Okkur finnst það lífsnauðsynlegt. 8

9 Í Kveikjum er fjallað um mjög margar og ólíkar hliðar á íslensku og við vonum að þú skiljir hversu mikilvæg og skemmtileg íslenskan er. Nú er það svo að ungt fólk er ólíkt. Sumir lesa mjög mikið af skáldsögum og ljóðum, aðrir lesa myndasögur, enn aðrir tímarit og netsíður, og svo eru þeir sem lesa lítið en horfa þeim mun meira á kvikmyndir og sjónvarpsþætti. En það vill stundum gleymast að í öllu þessu felst lestur. • Þegar þú horfir á sjónvarpsþætti ertu að lesa, greina, endurskapa, skilja og læra. • Þegar þú vafrar um á netinu, sérð eitthvað fyndið og póstar því inn á blogg eða samfélagsvef ertu að lesa, greina, endurskapa, skilja og læra. • Þegar þú segir brandara ertu að lesa í þá sem eru að hlusta og stýra frásögninni eftir þeirra viðtökum. • Þegar þú segir foreldrum þínum frá deginum í skólanum lýsirðu honum öðruvísi en þegar þú talar við vini þína – vegna þess að þið eigið ykkur annan talsmáta. Þar sýnirðu fram á að þú kunnir að beita fjölbreyttum stílbrögðum og ólíku málsniði í tungumálinu; að þú skiljir samhengi hluta í samfélaginu. Þú kannt móðurmálið vegna þess að öll þín skynfæri eru þjálfuð í því frá fyrsta degi að hlusta á umhverfið. Þú ert nú þegar skapari og höfundur Þú kannt öll brögðin í bókinni – en kannski veistu bara ekki alveg af því. Þú kannt þetta allt – en gott getur samt alltaf orðið betra. Þú getur gert tungumálið að verkfæri sem þú beitir af krafti bæði í rituðu og töluðu máli. Þetta er hlutverk þitt í íslenskunáminu og vonandi ertu til í að skella þér í slaginn og leggja nokkuð á þig.

10 Veturinn er æfingatímabil í líkamsrækt; í vor verða allir í bekknum með glerharða magavöðva og geta hlaupið tíu kílómetra án þess að blása úr nös. Í vetur færðu tækifæri til að leika þér með íslenskuna og læra í leiðinni hagnýtar staðreyndir um hana. Rétt eins og í annarri ræktun er stundum gott að vinna sjálfstætt og stundum er gott að vinna í hóp. Mörg verkefnanna í bókinni leysir þú upp á eigin spýtur en þú munt einnig vinna í stærri eða minni hópum með bekkjarfélögum að viðameiri eða tímafrekari verkefnum. Einkaþjálfun í íslensku svona herðir þú orðavöðvana – Upphitun

11 Ég man líka! Skrifaðu þín eigin minningabrot sem byrja á orðunum „Ég man …“ Hugsaðu fyrst og fremst um að brotin þurfi að hafa sérstakt gildi fyrir þig, þótt það sé líka gaman ef þau hafa gildi fyrir aðra. Miðaðu við að skrifa a.m.k. fimm minningabrot, en gættu að þér, því ef þú leyfir þér að fara á flug með þetta verkefni gæti það orðið mjög skemmtilegt og fyllt margar blaðsíður! Ég man Sköpun þarf ekki að vera umfangsmikil eða flókin til að teljast vera sköpun eða hafa áhrif. Stutt textabrot, skrifað af tilfinningu, getur skilað mjög miklu, eins og sést í þessum minningabrotum frá Þórarni Eldjárn: Ég man brotakex frá Kexverksmiðjunni Esju í brúnum bréfpokum. Ég man þegar Kiljan fékk Nóbelsverðlaunin. Ég man Danmörk-Ísland 14:2. Þessi stuttu textabrot hafa líklega ekki mikla merkingu fyrir þig – eða hvað? En fyrir foreldra þína, ömmur og afa hafa þau mjög líklega meiri merkingu og brotin geta kallað fram ótal hugrenningar, minningar og tilfinningar. Samt er hvert brot bara nokkur orð.

12 Markmiðið með þessum kafla er að þú skiljir hugtökin lestur og læsi og hvernig stíll, sköpun og skilningur getur verið ólíkur á milli einstaklinga. Að skilja í hverju lestrarþjálfun felst og af hverju það er mikilvægt að vera öflugur og klár lesandi. 1. kafli „Af hverju vil ég efla læsi?“ Margir spyrja sig þessara spurninga: „Hvað er þetta blessaða læsi? Er læsi nútímauppfinning eða eldgamalt fyrirbæri? Snýst læsi um að læsa einhverju? Eða er læsi svipað og hæsi, bara aðeins minna, hringlóttara, odd-hvassara og rauðleitara?“ Það er ekki nema von að sumir spyrji sig. Fyrir nokkrum árum var aldrei minnst á læsi. Börnum var bara kennt að þekkja stafina í fyrsta bekk, svo var þeim kennt að lesa stutt orð og svo lengri orð og svo setningar og svo málsgreinar og svo heilu bækurnar. Þá töldust börn vera læs – þegar þau kunnu að lesa. En eru þá ekki allir læsir? Allir sem kunna að lesa? Í vissum skilningi eru jú allir læsir – allir sem geta lesið fréttir á netinu eða blaðsíðu í bók og skilið hvað stafirnir þýða og hvað orðin merkja. En orðið læsi þýðir eitthvað annað og meira en einungis að kunna að lesa bókstafi og raða þeim í orð og setningar. Til að teljast læs verður maður að skilja það sem maður les: Eiginlega þýðir læsi skilningur. Eiginlega þýðir læsi skynjun. Eiginlega þýðir læsi skilningur á samhengi. Eiginlega þýðir læsi tilfinning fyrir merkingu orða og tákna í tungumálinu. Eiginlega þýðir læsi gagnrýninn lestur þar sem þú skilur að ekki er allt sem sýnist og að þú býrð yfir valdinu til að meta sannleikann úr því sem þú ert að lesa – skapa þína eigin merkingu.

13 Finnst þér þetta flókið? Skiljanlega! Þetta er ekki einfaldasta mál í heimi. En þetta er jafnframt eitt það allra mikilvægasta sem þú ákveður að læra í lífinu. Þetta er eiginlega eins og að læra að anda rétt, læra að synda til að geta bjargað lífi sínu í „lífsins ólgusjó“, læra að bjarga sér, læra skyndihjálp, læra að gera að eigin sárum til að geta læknað sig og læra að forðast þær gryfjur sem leynast í lífinu og allir geta dottið ofan í og meitt sig. Fyrsta skrefið í því að ná tökum á læsi er í rauninni mjög einfalt mál. Af hverju? Vegna þess að allt sem snýr að læsi veistu nú þegar. Allt sem snýr að læsi býr þegar í þér. Allt. Ekki bara sumt. Allt. Þessari bók er einfaldlega ætlað að minna þig á allt sem þú veist og kannt nú þegar. Hver einasta manneskja er snillingur í greiningu, lestri og endursköpun. Og það er hægt að sanna með sáraeinföldu dæmi. Á venjulegum degi opnarðu tölvuna, kveikir á vafranum og spjallar við vini og ættingja á samfélagsmiðlum. Þú ferð inn á heimasíður vina og sérð þar ýmislegt fyndið og skemmtilegt. Svo ferðu inn á fréttasíðu og sérð mynd af hundi undir fyrirsögninni: – Sækist eftir ráðherraembætti – Þú hlærð, klippir skjámyndina og póstar henni með orðunum: „Ég vildi að hundurinn minn væri svona metnaðarfullur!“ „Lækin“ streyma inn og aðrir pósta jafnvel svipuðum bröndurum eða skemmtilegum myndum. Hvað gerðist þarna? Þú sást venjulegar upplýsingar sem höfðu enga sérstaka merkingu. En svo sástu að í þeim lágu óbein skilaboð, að þarna lá einhver skrýtin og fyndin merking. Þú settir upplýsingarnar í samhengi við þinn eigin raunveruleika, endurskapaðir þær og miðlaðir þeim til vina þinna í búningi sem þér fannst líklegt að þeir myndu fíla. Þetta gerist þúsund sinnum á hverjum degi hjá öllum unglingum landsins og fullorðnum líka. Fjölmargar vinsælar heimasíður snúast meira og minna um þá list að pósta einhverju fyndnu, áhugaverðu eða skrýtnu sem maður finnur á netinu – að finna eitthvað, gefa því nýja merkingu með því að gefa því nýjan titil og setja í nýtt samhengi.

14 Við sjáum eitthvað í kringum okkur, tökum það inn, meltum það og sendum svo frá okkur í nýjum búningi. Við endursköpum heiminn eftir eigin höfði og bjóðum öðrum að þiggja okkar eigið framlag. Þetta er það sem við gerum. Alla daga. Í öllu þessu kemur læsi við sögu. Þú lest eitthvað á hverjum einasta degi. Lesturinn gerist að stórum hluta sjálfkrafa og þú hefur innbyggða þörf fyrir að lesa og skilja umhverfi þitt. Að vera læs er það sem þú gerir alla daga. Spurningin er bara hvað þú gerir við þetta læsi … hvort þú tekur eftir því eða hvort það fer framhjá þér. Hvernig veistu að þú ert lesandi, greinandi og skapari? Finndu dæmi úr daglegu lífi þar sem þú ert greinilega að skapa. Hvað einkennir samskipti á samskiptasíðum? Af hverju gera nemendur hlutina á mjög ólíkan hátt, jafnvel þegar allir pósta sömu fréttinni? Hvað liggur þér á hjarta? 1. Ef þú værir með aðgang að Facebook hér og nú, hvaða stöðuuppfærslu myndir þú birta? Veltir þú fyrir þér hvaða skilaboð þú sendir út um þig þegar þú skrifar stöðu á Facebook? Hugsar þú um hvort orðin eru við hæfi? Getur maður leyft sér að skrifa hvað sem er á Facebook? Finndu dæmi um stöðuuppfærslu sem er ekki við hæfi. 2. Þú fannst þessa mynd á netinu og ætlar að pósta henni á samfélagsmiðlum. Hvaða texta myndir þú setja með henni?

15 3. Í íslensku eru nokkrar algengar skammstafanir sem gott er að þekkja til. Um þær gildir sú meginregla að settur er punktur eftir fyrsta staf eða fyrstu stafina í hverju orði sem er skammstafað. Í skammstöfunum sem hér koma virðist það þó ekki alltaf vera raunin. Flettu upp í málfræðibók og lestu regluna um punktanotkun í skammstöfunum. Skoðaðu næst þessar skammstafanir og finndu út fyrir hvað þær standa. a.m.k. ath. bls. e.h. kl. HÍ m.a. m.a.s. m.t.t. nk. o.fl. o.þ.h. sbr. skv. t.a.m. u.þ.b. ASÍ m.ö.o. þ.e.a.s 4. Veldu fimm skammstafanir úr verkefninu og búðu til setningar þar sem þú sýnir hvernig þær eru notaðar. Skammstafanir Hvað þýðir þ.e.a.s.? spyr drengurinn upp úr lestri. Þessir andskotar? Vasabókarbrot Péturs Gunnarsonar LOL – BRB – ROFL – WTF! – YOLO Hvað þýða þessar skammstafanir? LOL þýðir t.d. „laughing out loud“ á ensku – en gætum við ekki alveg eins sagt HUH á íslensku? „Hlæ upphátt.“ Af hverju er okkur tamara að nota svona skammstafanir á ensku en íslensku? Er eitthvað í eðli þessara tveggja tungumála sem gerir það að verkum? Vinnið saman í hópum. Finnið algengustu skammstafanir af þessu tagi á ensku og búið til góðar, íslenskar útgáfur af þeim (eins og HUH). Skráið niður allar íslenskar skammstafanir sem þið þekkið. Ræðið um merkingu þeirra. Endið verkefnið á að búa til nýja, frumlega og fyndna merkingu fyrir skammstafanirnar.

5. Skrifaðu eftirfarandi texta í stuttum sms– skilaboðum: Ég er nýkominn heim og er búinn að versla það allra helsta í matinn, ástin mín. Mamma og pabbi koma í mat eftir klukkutíma, gætirðu verið svo væn að koma við í blómabúð að eigin vali og kaupa fallegan vönd? Og ef þú hefur tíma væri gott ef þú gætir skotist í sérverslun og keypt góðan mygluost, það var enginn almennilegur þannig í búðinni sem ég fór í. Kveðja, Stjáni. Heyrðu góði minn, ég skil ekki hvaða rugl er í gangi þarna hjá þér. Ég sagði aldrei að ég ætlaði með þér í bíó eða keilu eða neitt svoleiðis, ég sagðist bara ætla að hugsa málið og sjá til hvernig mér liði í dag og lofaði ekki neinu. Þú ert frekur eins og naut og leiðinlegur eins og hjartalínurit og ég nenni ekki að standa í þessu. Finndu þér einhverja aðra til að leika við. 6. Skrifaðu þessi sms–skilaboð eins og amma eða afi myndu gera það. thu ert aedi <3 hittumst @ sjoppan í kvold omg ma er klikkuð ég fékk 10 þús kall i simareikning Hvernig sms var hún að fá? Er rétt farið með skammstöfunina hér í glugganum? Við notum skammstafanir til að stytta mál okkar í ritmáli. Til dæmis = t.d. Klukkustund = klst. Herra = Hr. Síðastliðinn = sl. Frú = Fr. Og svo framvegis = o.s.frv. 16 SMS og skammstafanir

Textar Textar Textar Textar a. Textar eru eins ólíkir og höfundar þeirra, en það er gagnlegt að muna að velta fyrir sér tilgangi texta: Að spyrja sig: „Á þessi texti að fræða, leiðbeina, skemmta.“ Yfirleitt hefur hann tilgang, oftast mjög skýran en stundum ansi óljósan. Þá getur einn og sami textinn haft fleiri en eitt markmið. Hvert er markmið þessa texta? Varðandi heilann í þér Aðvörun Þú ert orðin(n) yfirkeyrð(ur) af netglápi. Slökktu á tölvunni og farðu að sofa. ! OK Með því að átta sig á þessu í upphafi lestrar skapast kjöraðstæður fyrir þig til að skilja vel og rækilega inntak textans. b. Fólk er alltaf að tjá sig, á hverjum degi og í ólíkum tilgangi, stundum til að miðla einföldum upplýsingum og stundum til að hafa áhrif og stundum jafnvel til að reyna að breyta öllum heiminum. Til þess þurfum við talmál, ritmál og líka afslappað tungumál þar sem við megum sletta. Þetta köllum við málsnið – okkar ólíku leiðir til að tjá okkur eftir tilefni, aðstæðum og tilgangi með tjáningunni. Eðli textans þarf að hæfa tilefninu og umhverfinu – eða hvernig heldurðu að það væri að setja saman húsgögn ef leiðbeiningarnar væru í ljóðaformi? c. Þú skrifar ólíka texta á hverjum degi. Stundum hratt, stundum hægt, stundum af mikilli íhugun, stundum hugsunarlítið. Allt eftir eðli málsins og dagsforminu. Texti sem þú hripar niður í flýti þegar þú skilur eftir skilaboð fyrir foreldra þína eða skrifar hvað vantar í búðinni er annars eðlis en texti sem þú pikkar á tölvu, prentar út og setur saman í ritgerð. Af hverju heldurðu að þessir textar séu svona ólíkir? 17 Fyrir það fyrsta er sá fyrri eingöngu ætlaður þér eða þínum nánustu sem þekkja þig og vita því vel hvaða hugsun bjó að baki skrifunum. Seinni textinn er ætlaður fleiri lesendum sem þekkja þig hugsanlega ekki eins vel og því er mikilvægara að hugleiða hvaða skilaboð textinn sendir út um þig sem skrifara og hvort einhver hætta sé á misskilningi. Undir slíkum kringumstæðum þarf að velja orð sín af kostgæfni og koma sér að kjarna málsins.

7. Bréfaskrif Þú ert að fara til útlanda og þig vantar gistingu í tvær nætur. Svo heppilega vill til að þú átt frændfólk á áfangastað sem gæti skotið yfir þig skjólshúsi. Skrifaðu tvö stutt bréf þar sem þú óskar eftir gistingu, eitt til fullorðinnar frænku sem þú hefur ekki séð eða heyrt í lengi og hitt til jafnaldra þíns sem þú ert í daglegum samskiptum við á samfélagsmiðlum. Er einhver munur á bréfunum? Er orðavalið eins í þeim báðum? 8. Svaraðu eftirfarandi spurningum í samfelldu máli. • Af hverju er texti út um allt? • Kemur þú á staði þar sem ekki er nokkurn texta að finna? Hvaða staðir eru það? • Af hverju eru ekki textar þar? • Eru textar á stöðum þar sem þeir eru óþarfir? Hvaða staðir eru það? • Getum við bjargað okkur án texta? • Hvers konar textar eru nauðsynlegir? • Hverjir eru óþarfir eða ónauðsynlegir? 18

19 9. Hvaða textategundir eru ætlaðar til að – skemmta? – fræða? – leiðbeina? Teldu upp eins margar textategundir við hvern flokk og þú getur. Berðu þig saman við bekkjarfélaga, voru listarnir ykkar líkir? 10. Hvernig texti er mest áberandi í þínu umhverfi – sem þú lest daglega? Er það texti sem: – skemmtir? – fræðir? – leiðbeinir? Hugsaðu málið – finndu eins mörg dæmi um hverja textategund úr daglegu lífi og þú getur. Til umhugsunar! Allan daginn um allan bæinn lestu texta. • Hvernig texta lestu á hefðbundnum degi? • Hvernig texta lestu sem þú þarft aðeins að renna hratt yfir til að ná aðalatriðunum? • Hvernig texta lestu sem krefst fullrar athygli þinnar? • Hvernig texta lestu sem krefst þess að þú gefir þér góðan tíma til að lesa hann, allt frá einni klukkustund upp í margar á viku? • Hvernig getur þú aukið lestrarhraða þinn? • Hvernig getur þú aukið áhuga þinn á lestri? • Hvernig texti eykur orðaforða þinn? • Hvernig texti fær þig til að njóta lesturs?

20 Iðkun er ákvörðun Þetta hafa margar spakar manneskjur sagt. Iðkun er ákvörðun. Það þýðir að þú tekur meðvitaða ákvörðun um að stunda vissa iðju í lífinu. Það er nefnilega ekki nóg að segjast vera eitthvað – ef maður er ekki að stíga sjálf skrefin. Kannski áttu vinkonu sem segir við alla að hún hafi mikinn áhuga á fótbolta – en samt fer hún aldrei á leiki eða sparkar sjálf í tuðruna. Kannski áttu frænda sem segist vera mjög umhverfissinnaður og hafa mikinn áhuga á umhverfismálum – en samt flokkar hann ekki heimilissorpið og setur það í endurvinnslu. Iðkun er ákvörðun sem maður fylgir eftir með markvissum skrefum og meðvitund um eigin gjörðir. „Ég vil ná árangri. Til að gera það þarf ég að iðka íþróttina. Ég tek hér með ákvörðun um að iðka íþróttina mína fjórum sinnum í viku. Sama hvað tautar og raular mun ég setja æfingarnar í forgang.“ Sá eða sú sem skilur að læsi er samfélagslega mikilvægt tekur að sama skapi ákvörðun um að þjálfa sig í íslensku og notkun hennar og ákveður að þjálfa sig – til dæmis svona: Ég næ árangri með því að þjálfa mig, helst á hverjum degi. Ég þarf að framkvæma styrktaræfingar – með því að auka við orðaforðann, auka málskilninginn, öðlast skilning á mismunandi orðræðu og bæta lestæknina. Ég þarf að kunna spretthlaup – að geta lesið styttri texta hratt og skimað í honum aðalatriðin.

21 Við lítum nefnilega stundum á íslenskuna eins og hún sé sjálfsagður hluti af okkur. Eins og hún sé bara eitthvað sem þurfi ekki að hlúa að. En það er því miður ekki rétt. Jafnvel þótt íslenskan búi í okkur og við kunnum betur á hana en okkur grunar getur hún samt rýrnað og tapað styrk sínum ef við tökum hana ekki alvarlega. Það má líkja tungumálinu við upphandleggsvöðvana. Við fæðumst með þá og ef við notum þá daglega haldast þeir í ágætu formi af sjálfu sér – en ef við gerum enn betur og ákveðum að styrkja þá með þjálfun getum við margfaldað styrk okkar. Með iðkun og þjálfun verðum við sterk; við sækjum styrkinn inn á við; við sækjum um styrk hjá okkur sjálfum og fáum styrkveitingu til að halda áfram og verða enn sterkari og þannig hættum við að vera óstyrk í samskiptum … (geturðu haldið áfram með þennan orðaleik og fimmaurabrandara?) Lestur snýst um að bera kennsl á stafi og hljóð og tengja allt saman í orð og setningar; merkingu. Við erum alltaf að kóða og afkóða. Eftir því sem við erum sleipari í þessari afkóðun verður auðveldara fyrir okkur að dýpka hana, læra ný orð og nýtt samhengi. Það að vera góður lesandi felur í sér að geta haft mismunandi lestrartækni á valdi sínu. Að geta lesið hratt og örugglega þegar við á, bæði upphátt og í hljóði. Að geta sökkt sér í efnið og lesið af skilningi þegar það reynist nauðsynlegt. Að geta numið þær upplýsingar sem þarf úr textanum á sem auðveldastan máta, t.d. með því að skima yfir hann. Því meiri fjölbreytni í lestri sem við ráðum yfir því betri lesendur verðum við! Ég þarf að byggja upp þol með því að lesa texta mjög reglulega. Ég þarf að stunda teygjur og slökun – með því að læra að gleyma stað og stund, gleyma amstri hversdagsins í heimi bókarinnar og læra að njóta lestrarins. Ég þarf að geta hlaupið langhlaup – að geta sýnt þrautseigju og komist í mark með því að klára ítarlega blaðagrein eða langa bók.

22 Af hverju vil ég þjálfa lestur? Já, af hverju viltu verða góður lesandi? Hér eru nokkrar tillögur að svörum – kannski finnst þér þau mismikilvæg en veltu þeim samt vandlega fyrir þér: p ég vil geta fengið sannar og skýrar upplýsingar um heiminn í kringum mig p ég vil vera nýtur samfélagsþegn; ég vil hafa áhrif á heiminn og geta stjórnað því hvaða áhrif heimurinn hefur á mig p ég vil finna til öryggis í daglegum athöfnum þar sem ég nota tungumálið, hvort sem það eru leiðbeiningabæklingar, uppskriftir, ástarbréf eða umsóknareyðublöð p ég vil geta skapað og notið listar og menningar, hvort sem það eru ljóð, myndlist eða kvikmyndir p ég vil hafa sterka tilfinningu fyrir málinu; geta notað fjölbreytt blæbrigði þess og skilið þau líka p ég vil hafa sjálfsvirðingu og ég skil að öryggi og leikni í tungumálinu er mikilvægur hluti af því p ég vil geta menntað mig og aflað mér þekkingar 11. Hvernig er mín forgangsröðun? Raðaðu svörunum hér að ofan eftir mikilvægi og settu það svar sem þér finnst mikilvægast efst á listann. Berðu svo svörin saman við svör bekkjarfélaganna. Eruð þið sammála eða ósammála? Ræðið hvers vegna lestur er mikilvægur og bætið eigin svörum við listann.

23 Lestraraðferðir 12. Hvernig lestu? • Ég renni augunum yfir línurnar. • Ég skapa myndir af orðunum í huganum. • Ég les orðin upphátt „í huganum“. • Ég stafa mig í gegnum hvert orð. • Ég les þar til ég skil hvert orð. • Ég giska á merkingu orðanna og samhengið í textanum. • Lestu alltaf með sömu aðferð? Hvernig texta dugar að renna hratt yfir? En hvenær er nauðsynlegt að lesa ítarlega? 13. Hér eru taldar upp nokkrar textagerðir. Skáldsaga Fræðigrein Ljóð Uppskriftabók Leiðbeiningar Ævintýri Símaskrá Orðabók Íslendingasaga Teiknimyndasaga Slúðurblað Námsbók Þjóðsögur Fréttaveita fésbókar Auglýsingasíður Flokkaðu textagerðirnar eftir því hvaða aðferð væri best að nota eftir eðli textans. 1) Skimun 2) Punktalestur 3) Djúplestur 4) Yndislestur Berðu þig saman við bekkjarfélagana. Eru niðurstöður ykkar samhljóða eða munar einhverju? Af hverju telurðu að svo sé? „Stórglæsilegt Íslandsmet í yndislestri sett í gær!“

24 Ólíkar lestraraðferðir Skimun er líklega sú tegund af lestri sem við notum mest dags daglega. Við hlaupum hratt yfir fyrirsagnir dagblaða og tímarita, stöðuuppfærslur á netinu, bloggfærslur og fréttir, auglýsingar og ýmis konar smærri texta. Áður en við lesum mikilvægan texta sem þarfnast djúplestrar, t.d. kafla í námsbók eða blaðagrein, er gott að skima yfir efnið; lesa fyrirsagnir, millifyrirsagnir og myndatexta og fá tilfinningu fyrir efninu. Skimun gagnast líka þegar velja þarf texta til að vinna með, t.d. í ritgerðarskrifum. Punktalestur er ákveðin tegund af skimun og er notaður til að safna helstu punktum meginmálsins. Þá rennir lesandi augunum yfir textann þar til hann finnur það sem leitað er að og les það vandlega til að vera viss um að hafa réttar upplýsingar. Punktalestur notum við líka við lestur á upptalningu, s.s. í bíóauglýsingum, leiðatöflu strætó og uppskriftabókum. Djúplestur er nákvæmari en skimun og punktalestur og hann notum við þegar við þurfum að kunna efnið vel og jafnvel alveg utanbókar. Djúplestur er hægur og meðvitaður þar sem lesandinn á í stöðugu samtali við sjálfan sig og spyr sig reglulega: „Skil ég það sem ég er að lesa?“ Mörgum finnst gott að dýpka lesturinn enn frekar með því að hafa blað og skriffæri við höndina og punkta jafnóðum niður aðalatriði, hugmyndir eða hugleiðingar, jafnvel ræða þær markvisst við bekkjarfélaga, vini eða samstarfsfélaga. Djúplestur er markviss og meðvitaður lestur þar sem lesandinn fylgist með eigin frammistöðu. Yndislestur er einfaldlega lestur sem maður hefur sjálfur yndi af; eitthvað sem maður gerir til að hafa gaman. Þetta er mjög mikilvæg lestraraðferð, ekki síst ef þú vilt verða öflugri lesandi. Ástæðan er sú að þetta er afslappaður lestur sem virkjar flest skynfæri, heila, hjarta og ímyndunarafl. Þannig tengist tungumálið og notkun þess djúpt inn í þig og þína tilvist. „Heiða Herkúlesardóttir nýkrýndur Norðurlandameistari í djúplestri og víðum skilningi!“ Við lifum ekki í tómarúmi – við sem manneskjur erum bókstaflega fjársjóðskistur þar sem íslenskan er geymd og færð inn í framtíðina. Vissirðu að fjölmörg lítil tungumál eru í útrýmingarhættu um allan heim og að á síðustu örfáum árum hafa mörg tungumál horfið alveg? Þetta er ekki sagt til að hræða þig en við sem notum íslenskuna berum líka á henni ábyrgð – það er okkar að fóstra hana innra með okkur og tryggja að hún lifi áfram.

25 14. Finndu öll sérnöfnin í textanum hér: Í gegnum tíðina hafa menn tekið eftir því að orð úr mismunandi tungumálum líkjast hvert öðru og velt fyrir sér hvers vegna tungumál eru lík eða ólík. Í Evrópu, eftir kristnitöku, var því haldið fram að allir hefðu í upphafi talað hebresku. Það var tungumálið sem Gamla testamentið var skrifað á og því hlutu Adam og Eva að hafa talað hebresku í Paradís. Í Biblíunni, nánar tiltekið í 11. kafla 1. Mósebók, er svo útskýring á því hvers vegna til varð ógrynni ólíkra tungumála. Í frásögninni segir af mönnum sem ætluðu í sameiningu að byggja svo háan turn að hann næði til himins. Guði féll sú hugmynd ekki vel í geð og þess vegna greip hann fram fyrir hendur mannanna með því að rugla tungumálum þeirra og koma í veg fyrir að þeir skildu hver annan. Þar með gáfust mennirnir upp á að byggja turninn og tvístruðust þeir um alla jörðina. Sagan af turninum mun eiga rætur að rekja til turns sem tilheyrði musterisbyggingum í borginni Babýlon við Efrat. Orðatiltækið babelsk ringulreið, eða kaos, er til í mörgum evrópskum tungumálum og gefur til kynna þær aðstæður sem sköpuðust eftir að Guð greip inn í og stöðvaði byggingu turnsins með því að rugla tungumálum mannanna. Þurftir þú að lesa allan textann til að finna sérnöfnin? Hvaða lestraraðferð beittir þú? 15. Skoðaðu textann og skrifaðu núna niður öll samsettu orðin í honum. Dæmi um samsett orð: sérnöfn = sér + nöfn. • Hversu mörg samsett orð fannstu? • Hvaða lestraraðferð notaðir þú núna? • Af hverju? 16. Hver er kjarni málsins? Lestu textann aftur og gerðu þrjár spurningar úr honum, eins og þú værir að semja prófspurningar.

26 Sökktu þér ofan í yndislestur! Margir hafa mikla unun af því að lesa og grípa auðveldlega í bók sem afþreyingu. En aðrir líta næstum aldrei í bók og fara þannig á mis við þau áhrif sem lesturinn getur haft á tilfinningar okkar og vitsmuni. Þeir sem stunda ekki yndislestur eru einfaldlega í verra lestrarformi og það getur verið erfitt að koma sér aftur í gang í lestri ef maður tapar niður æfingunni. Það er samt aldrei of seint að snúa þessari þróun við. Ef þú vilt verða öflugri lesandi þarftu að gera það á eigin forsendum – af því að ÞÚ vilt það! Svo þarftu einfaldlega að staðfesta þann vilja með ákvörðun og aðgerðum. Taktu ákvörðun um að lesa eitthvað á hverjum degi, í a.m.k. fimmtán mínútur á dag í bók að eigin vali. Einsettu þér að lesa allt sem þú lest með vitund og athygli. Mundu líka að yndislestur einskorðast ekki við ljóð, smásögur eða skáldsögur. Ef þú hefur unun af fræðibókum, tímaritum eða teiknimyndasögum skaltu líta á það allt sem yndislestur. Oft er næði og einbeiting mjög mikilvæg, þótt stundum geti maður lesið í miklum látum. Það getur farið eftir eðli textans og dagsformi þínu hvaða lestrarlag hentar þér best. Eins og með annað sem maður vill gera vel er mikilvægt að vanda til verka og ígrunda hvað maður er að gera, að hafa metnað til að leggja á sig smá vinnu til að verða betri og færari – því þegar upp verður staðið mun það skila sér á ótal vegu, s.s. í tímasparnaði, færni og fróðleik … æfingin skapar meistarann! Það allra mikilvægasta sem þú þarft að spyrja þig að núna er þetta: Af hverju vil ég taka ákvörðun um að gerast góður lesandi? Og hvernig ætla ég að fara að því? Staldraðu við og hugsaðu um hvernig bók eða texta þú vildir helst lesa – núna. Hvað kemur upp í hugann? (Má vera hvað sem er). Rifjaðu upp síðustu skemmtilegu lestrarreynsluna þína með tveimur einföldum spurningum: • Hvenær leið þér síðast vel við lestur? • Hvað varstu að lesa? Skrifaðu niður bókartitla eða sögutegundir sem vekja áhuga þinn. Spurðu vini þína um spennandi bækur. Prófaðu að opna nokkrar bækur á bókasafninu og lesa fyrstu blaðsíðuna – finndu út hvað höfðar til þín.

27 „Nýsköpun í tungumálinu hefur stóraukist á meðal unglinga – mesta aukning allra Norðurlandaþjóða!“ 17. Uppáhaldsbókin mín Hver er uppáhaldsbókin þín? Skrifaðu 100 orð um hana. Um hvað er hún? Af hverju er hún í uppáhaldi hjá þér? Hvenær lastu hana fyrst? Hefurðu lesið hana oft eftir það? Til að koma þér á sporið geturðu byrjað verkefnið á því að segja lesandanum af hverju bókin fær þín bestu meðmæli: „Ég mæli með því að þú lesir þessa bók vegna þess að hún … “ Að þessu loknu skaltu æfa þig heima í að flytja textann til þess að undirbúa þig fyrir kynningu á bókinni fyrir framan bekkinn. 18. Ræðið í hópum um ykkar uppáhalds lestraraðstæður Hvernig líður þér best við lestur? Hvar? Hvernig er lýsingin? Tónlist eða ekki? Heyrnartól eða ekki? Að morgni, í hádeginu eða að kvöldi til? Í rúminu eða við eldhúsborðið? Í stofusófanum? Rétt fyrir svefninn? Í næði eða í kringum fólk? Henta vissar aðstæður fyrir ákveðnar tegundir af lestri? 19. Draumaskólinn Lýstu draumaskólanum þínum! Hvernig eru skólastofurnar? Matsalurinn? Leiksvæðið? Aðstaða fyrir unglinga? Hvaða námsgreinar eru kenndar? Hvernig læra nemendur? Æfðu flutninginn á erindinu heima. Gættu að réttri öndun (í gegnum nefið og ofan í maga) og skýrum framburði.

28 Lestur er sköpun! Þú þarft ekki að ákveða að þú sért skapari – þú ert það nú þegar, alla daga og nætur. Við lesum sjálfkrafa, alltaf, alla ævi – lesum í orð, tákn, raddblæ, andlitsdrætti, þagnir, samhengi, vísanir og ótal margt fleira. Undir niðri skynjum við miklu meira en við gerum okkur grein fyrir. Við getum meira að segja lesið auðveldlega í orð þar sem stafirnir eru brenglaðir. Svmkmaæt rnsanókn við Cmabrigde hkóásla þá stkpiir ekki mlái í hðvaa röð stfiar í oðri eru, það enia sem stikipr mlái er að frtsyi og stíasði stinaurfn séu á rtéutm satð. Aillr hniir sfitarnir gtea vireð í aöljrgu rlgui en þú gtuer smat lseið það aðvuledlgea. Áæðsatn fiyrr þsesu er að mnnashgrniuun les ekki hevrn satf friyr sig hleudr oirðð sem hiled. Gastu ekki lesið textann nokkuð auðveldlega þótt stafirnir væru brenglaðir? Heilinn afruglaði textann fyrir þig og þú gast greint hvaða orð ættu að vera þarna svo að textinn rann nokkuð auðveldlega um huga þinn fyrir vikið. Svona ertu nú klár! Mjög margt í kringum okkur staðfestir þessa tilhneigingu okkar til að skilja hlutina og setja þá í samhengi við eitthvað annað sem við þekkjum fyrir. Við erum alltaf að meta upplýsingar, greina þær og leita að lausn. Eins og þegar maðurinn prentaði þessa stafi á stuttermabol og gekk í honum heilan dag: ÞÐ ÞRF KK LL STFN TL Ð SMJ LJÐ 20. Bekkurinn rannsakar og gefur skýrslu Skiptið bekknum niður í 3–4 manna hópa þannig að í hverjum hópi sé a.m.k. einn með myndavél, t.d. í snjallsíma. Hóparnir fara í gönguferð í nágrenni skólans í 20 mínútur og taka myndir af öllu merkilegu, skrýtnu, áhugaverðu eða skemmtilegu sem fyrir augu ber. Þegar inn er komið halda nemendur í hverjum hópi kynningu á nokkrum myndum að eigin vali og útskýra í sameiningu af hverju þetta myndefni varð fyrir valinu.

29 Allir sem hann hitti þann daginn þráðu að vita hvað stafirnir þýddu og reyndu óumbeðnir að leysa þrautina. Stafirnir urðu að gátu vegna þess að eitthvað vantaði … en hvað? Allir löðuðust að gátunni eins og flugur að mykjuskán. Allir vildu leysa gátuna (og sumir gátu það). Getur þú það? Í íslensku þarf bæði að nota sérhljóð og samhljóð til að mynda gjaldgeng orð – þótt til séu orð sem hafa einungis eitt hljóð. 21. Í eftirfarandi stafarunum eru engin sérhljóð. Settu inn sérhljóð að eigin vali og myndaðu eins mörg orð og þú getur úr stafarununni. Þú mátt rugla stöfunum eins og þú vilt en ekki má bæta við samhljóðum! LSTR VRKFN STFRN NDLTSKRM GT VNGVLTR HJLBRTT NN STRKTRSJÐR SSS MLFRÐRGLR 22. Hér á eftir vantar hins vegar öll samhljóð. Settu inn viðeigandi samhljóð að eigin vali og myndaðu eins mörg orð og þú getur úr stafarununni. Þú mátt rugla stöfunum eins og þú vilt en ekki má bæta sérhljóðum við! E–U Ö–U AU–U É–Ó A–Ó Á–A A–E–U Hver stafur í orði gefur eitt stig – teldu hvað þú nærð mörgum stigum og berðu þig saman við bekkjarfélagana í lokin. Var auðveldara að búa til orð úr samhljóðunum eða sérhljóðunum? Að fylla í eyðurnar Sumt sem við heyrum ýtir á takka í höfðinu og setur sjálfkrafa af stað eitthvað sem við viljum fylla inn í: Sprækur eins og … Sénsinn … Gulur, rauður … Á morgun, segir sá … Úllen dúllen doff … Síðan þú fórst hef ég verið með magakveisu … Hvað er þetta svarta …? Hvað er þetta græna …? Geturðu komið með fleiri dæmi? Hvað þarf til að gáta sé gáta – til að gáta gangi upp? Ræðið um gátur, farið með skemmtilegar gátur sem þið munið eftir og endið á að semja eigin gátur.

Það mikilvægasta sem þú getur tekið með þér úr þessum kafla er þetta: Þú – ert – læs. Nú þegar. Læsi er innbyggt í öll þín skynfæri og þú skilur miklu meira en þú heldur. Markmiðið er að að þú takir þennan hæfileika og brýnir hann enn frekar – að þú verðir smám saman enn betri lesandi á öllum sviðum. 30 Að lokum – þetta um læsi Taktu stöðuna! stend klár á því hvað læsi er og hvaða þýðingu það hefur í lífinu. veit til hvers skammstafanir eru notaðar og hvaða reglur gilda við notkun þeirra. þekki muninn á skimun og punktalestri. er með það á hreinu hvaða textategundir kalla á djúplestur. tek mér tíma fyrir yndislestur. þekki muninn á texta sem fræðir og texta sem leiðbeinir. Finndu hvar þinn áhugi liggur! Ekki bíða bara eftir að einhver annar segi þér hvað á að gera og hvernig! Hvað fannst mér skemmtilegast í þessum kafla? En erfiðast? Af hverju? Hvað vakti sérstakan áhuga minn? Hvað vil ég skoða betur?

Sorg eða frekja? p Skrifaðu færslu á samfélagsmiðlum út frá sjónarhorni barnsins á þessari mynd. p Hugsaðu þér að þessi ljósmynd sé notuð í frétt í dagblaði. Um hvað fjallar fréttin? Hver er fyrirsögnin? p Myndið þriggja manna hópa og skrifið niður öll orð sem tengjast því að gráta. Hvað getið þið fundið mörg orð? Hvaða hópur finnur flest orð? 31

32 Við höfum sem betur fer langflest aðgang að einhverju merkilegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst í heiminum – tungumáli. Íslenska er okkar tungumál. Því miður er stundum látið eins og tungumál sé ekkert mál, í mesta lagi smámál. Stundum er látið eins og þekking okkar og skilningur á tungumálinu sé jafn sjálfsagður og vatnið sem rennur í læknum. En þannig er það hreint ekki. Staðreyndin er sú að þú hefur haft mjög mikið fyrir því, frá unga aldri, að læra tungumálið og öðlast á því nægan skilning til að geta beitt því. Ótal fræðimenn hafa skrifað kenningar um það hvernig manneskjan lærir tungumál en enginn hefur enn komist að fullnægjandi og endanlegri niðurstöðu. Tungumálið er áfram viss ráðgáta. Markmiðið með þessum kafla er að hita heilann upp enn betur og skoða hvernig við notum tungumálið á ólíkan hátt. 2. kafli Mikill er máttur tungunnar

33 Tungumálanám og -skilningur virðist því vera eitt af undrum lífsins. Fræðimenn sem hafa rannsakað ung börn hafa t.d. komist að því að þau þróa kunnáttu í móðurmálinu jafnt og þétt og byggja nýja kunnáttu á því sem þau heyra. Margt bendir til þess að einhvers konar tungumálakerfi sé innbyggt í okkur frá fæðingu. Við höfum ótrúlegan hæfileika til að skilja málfræði tungumálsins og hvernig það virkar. Þetta er líka gott að hafa í huga í málfræðináminu – þú átt málfræðina alveg jafnmikið og þú átt tungumálið. Við notum tungumálið til að tjá allar okkar tilfinningar: Ást, gleði, reiði, sorg og allt þar á milli. Við lesum það, skrifum það, heyrum það og hugsum á því. Tungumálið er algerlega ómissandi á hverjum einasta degi. Ímyndaðu þér hvernig samskipti þú ættir við vini þína ef þú gætir ekki notað tungumálið. Það myndi flækja málin ansi mikið, ekki satt? Þess vegna er góður skilningur á íslensku gríðarlega mikilvægur fyrir alla, sérstaklega þig – til að þú getir skilið allt sem þér er sagt og til að þú getir tjáð þínar eigin langanir, hugmyndir og skoðanir. Í hvað notum við tungumálið? Við notum það til að: p tala saman p hugsa p skipuleggja p fá hugmyndir p búa til sögur p rifja upp minningar p sjá fyrir okkur framtíðina p skrifa ljóð p stofna fyrirtæki p sækja um vinnu p segja upp vinnu p skrifa innkaupalista p og ótal margt fleira Tungumálið er lykillinn að því að vera virkur þátttakandi í mannlegu sam- félagi og markmiðið með íslenskukennslu er að styrkja þig í notkun þess. Án tungumálsins erum við valdalítil og einangruð og eigum erfitt með að hafa áhrif á heiminn og láta drauma okkar rætast. 1. Hvernig segirðu frá? Finndu áhugaverða frétt og ímyndaðu þér að þú sendir hana í tölvupósti eða á samskiptasíðu til þriggja einstaklinga á ólíkum aldri, t.d. vinar þíns, mömmu og afa. Notarðu sama orðalag fyrir alla þessa einstaklinga? Hvað þarftu að hafa í huga til að skilaboðin sem fylgja með fréttinni passi hverjum og einum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=