SÖGU MANNKYNS
Komdu og skoðaðu SÖGU MANNKYNS ISBN: 9979-0-1023-1 © 2006 Sigrún Helgadóttir © 2006 teikningar Íris Auður Jónsdóttir Ritstjórn: Hafdís Finnbogadóttir og Ellen Klara Eyjólfsdóttir Öll réttindi áskilin Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi 1. útgáfa 2006 önnur prentun 2018 þriðja prentun 2021 Útlit og umbrot: Námsgagnastofnun Prentvinnsla: Litróf ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja
Komdu og skoðaðu Sigrún Helgadóttir er höfundur og Íris Auður Jónsdóttir teiknaði myndir SÖGU MANNKYNS
Menn verða til Einu sinni voru engir menn á jörðinni en margar tegundir af plöntum og dýrum. Á löngum tíma urðu til nýjar tegundir. Svo hurfu þær og aðrar komu í staðinn. Apar lifðu í Afríku. Fyrir 5 milljónum ára fóru sumir þeirra að standa upp og ganga á afturfótunum. Þeir eru kallaðir mannapar. Svo urðu til nýjar tegundir sem notuðu hendurnar og bjuggu til verkfæri og sumar kunnu að nota eld. Þetta voru frummenn. Nútímafólk kom fram fyrir um 150 þúsund árum. Fólkið gerði ýmislegt sem dýr geta ekki. Það hjálpaði þeim sem voru veikir. Það bjó sér til föt þegar það flutti þangað sem var kalt. Fólk talaði saman og lærði hvert af öðru. Það smíðaði hljóðfæri, málaði myndir eða gerði annars konar listaverk. Oft trúði það á einhvern æðri mátt eða guði. 2
Fólkið bjó í hópum og notaði verkfæri og eld. Það hjálpaðist að við að safna plöntum og veiða dýr sér til matar. Svo fór fólk að flytjast frá Afríku. Kannski var það að leita að betra landi eða meira plássi. Kannski var það að elta dýr en þau ferðast oft langar leiðir á hverju ári. Kannski var fólk bara forvitið. Fólk komst fótgangandi, eða á litlum bátum, á milli heimsálfa. Nútímafólk breiddist út um allan heim en aðrar tegundir af mönnum dóu út. 3
4 Mannkynssaga Fólk sem fluttist í ný heimkynni þurfti að læra ýmislegt og breyta venjum sínum. Þar var oft öðruvísi loftslag en á gamla staðnum og þess vegna lifðu þar aðrar lífverur, dýr og plöntur. Þær þurfti fólk að læra að þekkja, safna, veiða og varast. Fyrir um 12 þúsund árum hlýnaði í heiminum. Jörðin varð sums staðar mjög frjósöm. Það þurfti ekki að fara langt til að safna nægri fæðu. Fólk gat sest að. Það komst upp á lag með að rækta plöntur og dýr. Sumir hættu að safna og veiða og urðu bændur. Smátt og smátt mynduðust ólíkir siðir hjá hópum manna sem bjuggu langt hver frá öðrum. Saga fólks á hverjum stað varð sérstök. Saga fólks á jörðu frá upphafi til okkar dags er kölluð mannkynssaga.
5 Í lítilli bók er bara hægt að segja pínulítið brot af mannkynssögunni. Það er eins og við séum stödd í ógnarstórri blokk. Þegar við horfum út um glugga sjáum við ekki upp eftir blokkinni fyrir skýjum rétt eins og við sjáum ekki framtíð okkar. Við sjáum niður blokkina. Gluggana sem eru næst okkur sjáum við best. Svo sjáum við gluggana neðar verr og verr. Það eru íbúðir innan við alla þessa glugga. Þar er fólk að gera eitthvað og saga þess verður til. Við vitum líka að blokkin stendur á jörðinni og nær langt niður í hana. Þar er erfitt að sjá nokkuð. Í þessari bók þykjumst við kíkja á örfáa glugga á slíkri risablokk.
6 Egyptaland hið forna fyrir um 7000–2000 árum Áin Níl á upptök sín í fjöllum Afríku og rennur um eyðimörk norður eftir Egyptalandi. Þegar snjóa leysir í fjöllunum flæðir áin yfir bakka sína. Þá verður þurr jörðin rök og frjósöm. Í Nílardalnum fór fólk snemma að rækta korn, grænmeti og ávexti. Yfir Egyptalandi réðu konungar, kallaðir faraóar. Þjóðin trúði á marga guði og leit líka á faraóana sem guði. Fólkið varð að vinna fyrir faraóana. Þeir létu hlaða risastóra píramída úr grjóti, þeim sjálfum og guðunum til dýrðar. Það tók mörg ár fyrir mörg þúsund menn að byggja píramída.
7 Þegar faraóar, drottningar og annað háttsett fólk dó var líkömum þeirra breytt í múmíur með því að þurrka líkin svo að þau rotnuðu síður. Hver múmía var lögð í kistu og síðan í grafhýsi sem var leyniherbergi inni í píramída. Þar var líka sett ýmislegt sem kæmi sér vel í lífi eftir dauðann; matur, drykkur, peningar, gull og gersemar. Mikið af því sem var í píramídunum er horfið en þeir standa og gefa upplýsingar um líf fólks í Egyptalandi á þessum tíma. Egyptar notuðu letur sem er eins og litlar myndir. Í því voru yfir 700 mismunandi tákn. Það var málað á steina eða grafið í leir. Egyptar skrifuðu líka á sefgras sem er kallað papírus. Fyrir um 3700 árum náði erlend þjóð yfirráðum í Egyptalandi um tíma. Sú saga endurtók sig nokkrum sinnum. Síðasta drottning Egypta hét Kleópatra.
8 Kína fyrir um 7000–800 árum Kína er umlukið háum fjöllum, eyðimörkum og hafi. Í þúsundir ára var það einangrað frá öðrum hlutum heimsins. Þar þróaðist snemma menning, að mörgu leyti ólík menningu annarra þjóða. Landbúnaður hófst við Gulá líklega fyrir um 7000 árum. Bændur ræktuðu korn, sojabaunir, ávexti, hnetur og grænmeti og voru með svín, kjúklinga og hunda. Þar sem var rakt og heitt ræktuðu þeir hrísgrjón. Kínverjar hafa kunnað að rækta silkifiðrildi og framleiða silki úr púpum þeirra í um 5000 ár. Kínverjar hafa átt ritmál í um 3400 ár. Það er táknmál og hvert tákn stendur fyrir hugtak en ekki hljóð eins og í stafrófi. Kína var lengi skipt í nokkur konungsveldi. Margir kónganna létu byggja varnarveggi á landamærum ríkja sinna.
9 Árið 221 f.Kr. sameinaði einn kóngurinn öll smáríkin í eitt stórt ríki og kallaði sig fyrsta keisara Kína. Hann lét einnig sameina varnarveggina í norðurhluta Kína í einn. Það er Kínamúrinn. Hann er eitt stærsta mannvirki í heimi. Þegar keisarinn dó var hann grafinn í risastóru grafhýsi. Til að gæta hans voru settir þar 7500 hermenn búnir til úr leir. Leirstytturnar eru jafnstórar mönnum, með ólík andlit og með raunveruleg vopn. Kínverjar voru fyrstir til að búa til pappír. Þeir fundu líka upp postulín, áttavita og hjólbörur.
10 Grikkland fyrir um 3000–2300 árum Á Grikklandi voru mörg borgríki, hvert með þéttbýliskjarna og landbúnaðarland. Aþena var þekktasta borgríkið. Þar hittust frjálsir karlmenn á tíu daga fresti, ræddu mál og greiddu atkvæði. Grikkir trúðu á marga guði og gyðjur. Seifur og Aþena dóttir hans voru æðst þeirra. Fólk þjálfaði sig og keppti í íþróttum. Frægustu íþróttaleikirnir voru fjórða hvert ár í Ólympíu. Talið er að Grikkir hafi fyrstir þjóða skrifað og leikið leikrit. Þau voru skrifuð til að gleðja guðina. Sum þeirra gleðja fólk í leikhúsum enn þann dag í dag. Grikkir byggðu stór marmarahof með miklum, útskornum súlum. Leirmunir þeirra eru líka frægir. Þeir voru oft skreyttir með myndum úr daglegu lífi fólksins.
Áhersla var lögð á vísindi og rökfræði. Sókrates, Plató og Aristóteles voru miklir hugsuðir og enn er vitnað í hugmyndir þeirra og heimspeki. Grikkir höfðu líka kenningar um sólkerfið og uppgötvuðu reglur í stærðfræði. Eftir langt stríð á milli borgríkjanna lagði kóngurinn í nálægu ríki Grikkland undir sig. Sonur hans, Alexander, tók við ríkinu 20 ára gamall. Hann stækkaði það suður til Egyptalands og austur til Indlands og byggði borgir í ríki sínu að grískri fyrirmynd. Alexander hafði lært hjá Aristótelesi og breiddi út gríska menningu. Hann leyfði þó þeim þjóðum sem hann lagði undir sig að halda menningu sinni. Alexander mikli dó 33 ára gamall. Þá skiptu hershöfðingjar hans ríkinu á milli sín. 11
12 Rómaveldi fyrir um 2500–1500 árum Fyrir meira en 2500 árum var lítið ríki þar sem borgin Róm er nú. Smátt og smátt lögðu Rómverjar undir sig landsvæði sem nú er í mörgum löndum í Evrópu, vestast í Asíu og á norðurströnd Afríku. Fyrst var ríkinu stýrt af hópi manna sem valinn var af ríkustu fjölskyldum Rómar. Seinna gerði voldugur hershöfðingi sjálfan sig að keisara. Síðan voru keisararnir í Róm valdamestu menn ríkisins hver á eftir öðrum. Ríkinu var skipt í héruð. Í hverju þeirra var landstjóri. Hann lét fólk borga skatta, hlýða rómverskum lögum og virða rómverska guði. Vegir voru lagðir um allt ríkið og byggð mannvirki sem sum standa enn. Í borgum voru vatnsveitur og skolpleiðslur, hof og baðhús ætluð almenningi, búðir og veitingahús. Flestir bjuggu í fjölbýlishúsum en ríkir menn í stórum húsum með þjónum sínum og þrælum.
13 Rómverjar trúðu á marga guði og gyðjur í mannsmyndum og voru Júpíter og Mínerva æðst þeirra. Rómverjar töluðu latínu og í mörg hundruð ár var latína tungumál menntamanna í Evrópu. Ríkir Rómverjar áttu marga þræla sem unnu öll verk og þeir höfðu því nægan tíma til leikja og íþrótta. Í stærsta hringleikahúsinu, Kólosseum í Róm, horfðu þeir til dæmis á þræla skylmast upp á líf og dauða. Húsið tók um 50 þúsund áhorfendur í sæti og stendur enn að hluta til. Rómverjar sömdu og léku leikrit. Þau voru sum alvarleg eins og grísku leikritin en líka gamanleikrit með tónlist og dansi. Á 5. öld e.Kr. náðu aðrar þjóðir völdum í ríki Rómverja og það leið undir lok.
14 Perú fyrir um 4000–500 árum Ameríka er stór og fjölbreytt. Þar eru skógar, eyðimerkur, regnskógar og fjöll. Þar bjuggu margar þjóðir. Hver þeirra átti sitt tungumál og sína menningu. Fyrir 4000 árum voru bændur sestir að í Perú. Fyrir 3200 árum var fólk þar farið að hlaða stórar byggingar úr grjóti og búa til muni úr gulli. Á löngum tíma mynduðust ýmiss konar samfélög manna og hurfu aftur. Fyrir um 800 árum komust Inkar til valda í Perú. Inkaríkið var um 4600 km frá norðri til suðurs. Það náði frá ströndinni og langt upp í fjöllin sem sum eru um 7000 metra há.
15 Konungurinn bjó í borginni Kúskó. Hann var talinn afkomandi sólarinnar. Sólin var æðst guða. Inkar trúðu líka á mátt fjallanna. Þau gátu drepið með skriðum en þaðan kom líka lífsnauðsynlegt vatn í ár og á akra. Öll hús voru hlaðin úr grjóti, hof, hallir og heimili. Veggir urðu að vera traustir því að jarðskjálftar eru algengir. Steinlagðir vegir lágu um allt ríkið, upp og niður fjöll og um hengibrýr yfir gljúfur. Inkarnir þekktu ekki farartæki á hjólum. Sendiboðar stóðu vakt í húsum við vegina. Þeir tóku á móti skilaboðum og hlupu með þau til næstu sendiboða við veginn. Þannig bárust skilaboð og varningur með miklum hraða um allt ríkið. Fólk ræktaði margs konar ávexti og grænmeti; maís, tómata, kartöflur, paprikur og grasker. Lamadýr voru notuð til að bera þungar klyfjar. Þau gáfu líka af sér kjöt og ull í föt og teppi.
16 Evrópa á miðöldum fyrir 1500–500 árum Á miðöldum var lénsskipulag í mörgum löndum Evrópu. Þá var kóngurinn æðstur. Hann bjó í höll eða kastala og hafði um sig hirð aðalsmanna og riddara. Þeir fengu land hjá kónginum, kallað lén, en urðu í staðinn að hjálpa honum í stríði. Flestir voru bændur, ræktuðu landið og framleiddu fæðu. Bændafólk bjó í einföldum húsum með dýrum sínum, oft í litlum þorpum. Það borgaði lénsherrunum, með mat eða vinnu, fyrir að fá að nota land þeirra. Kirkjan var mjög valdamikil. Páfinn í Róm var æðsti maður kirkjunnar. Í hverju landi voru biskupar. Fólk varð að hlýða fyrirmælum kirkjunnar.
17 Annars var það kallað villutrúarfólk og var ofsótt og stundum brennt á báli. Byggðar voru stórar og skrautlegar dómkirkjur. Það gat tekið meira en 100 ár að byggja slíka kirkju. Sumir fóru í klaustur. Þau voru ýmist fyrir munka eða nunnur. Fólkið gaf allt sem það átti og mátti ekki giftast. Í klaustrum var veiku fólki oft hjálpað. Ólíkt öðru fólki kunnu munkar og nunnur að lesa og skrifa. Í klaustrum voru víða handskrifaðar merkilegar bækur, skreyttar með myndum, og ýmis listaverk unnin. Borgir mynduðust í kringum kastala. Fólk þar borgaði leigu fyrir húsnæðið og vann ýmis störf. Sumir saumuðu föt eða útbjuggu leirmuni. Aðrir voru kaupmenn, bakarar, slátrarar, bruggarar, veitingamenn, gullsmiðir, prestar eða læknar. Fólk í borgum gat orðið ríkt og valdamikið þótt það væri ekki aðalsfólk.
18 Endurreisn og siglingar fyrir um 650–500 árum Fólk á Ítalíu kynnti sér það sem Grikkir og Rómverjar höfðu gert um 2000 árum fyrr og fékk þá ýmsar nýjar hugmyndir. Þetta var kallað endurreisn. Ríkt fólk borgaði listamönnum fyrir verk sín og mikið varð til af fallegum byggingum og listaverkum. Leonardo da Vinci var bæði listmálari og vísindamaður sem rannsakaði náttúruna. Lögð var áhersla á að hver maður væri frjáls en ekki bundinn af kirkju eða léni. Fólk átti að mennta sig til að þroska hæfileika sína. Ríkir foreldrar sendu syni sína í skóla en einkakennarar kenndu stelpum heima. Krakkarnir lásu skrif Grikkja og Rómverja, lærðu tónlist og aðrar listgreinar og tungumál.
19 Farið var að stunda vísindi og rannsaka alls kyns efni, plöntur, dýr og menn. Prentvélin var fundin upp í Þýskalandi. Þá var hægt að prenta bækur og dreifa nýjum hugmyndum og þekkingu um alla Evrópu. Fólk vildi kaupa vörur eins og krydd og silki frá Kína eða Indlandi. Menn vildu reyna að sigla til Asíu til að sækja þessar dýru vörur. Árið 1492 reyndi Kristófer Kólumbus að komast til Indlands með því að sigla í vestur frá Evrópu. Eftir fimm vikur komu skip hans að stórum eyjum. Kólumbus hélt að hann væri kominn til Indlands og nefndi eyjarnar Vestur-Indíur. Seinna sáu menn að þetta er risastór heimsálfa. Hún fékk nafnið Ameríka. Þegar Evrópubúar komu að ókunnum löndum sögðust þeir vera að finna þau og lögðu eign sína á þau. Samt hafði fólk búið í löndunum í mörg þúsund ár. Evrópubúar höfðu bara ekki vitað af því.
20 Ameríka fyrir 500–100 árum Evrópubúar flykktust til Ameríku. Spánverjar lögðu mestalla Suður-Ameríku undir sig. Þeir gerðu heimamenn að þrælum og fluttu skipsfarma af gulli og silfri til Spánar. Frakkar og Bretar fluttu til Norður-Ameríku og síðan aðrar Evrópuþjóðir. Stofnuð voru bresk fylki við austurströndina. Fólk þar þurfti að borga háa skatta til Bretlands og fannst það ósanngjarnt. Fylkin voru sameinuð í eitt ríki, Bandaríkin, og lýstu yfir sjálfstæði sínu. Evrópumenn kunnu í fyrstu ekki að rækta amerískar matjurtir en frumbyggjarnir kenndu þeim það. Nýbúum fjölgaði stöðugt og lögðu undir sig meira land. Frumbyggjarnir voru reknir burt eða drepnir. Margir dóu líka úr sjúkdómum. Margar þjóðir frumbyggja hurfu alveg. Aðrar voru neyddar til að lifa á sérstökum svæðum, oft langt frá fyrri heimkynnum sínum. Tungumál þeirra og menning hurfu að mestu.
21 Evrópubúar ræktuðu baðmull, tóbak og sykur í Ameríku. Í fyrstu létu þeir frumbyggja vinna á ekrunum. Þegar þeir dóu þúsundum saman vantaði vinnufólk. Þá var flutt inn fólk frá Afríku og gert að þrælum. Þótt sumir færu vel með þræla sína voru þeir eins og hver önnur eign húsbænda sinna, ófrjálsir og réttlausir. Um 1800 var þrælahald bannað í norðurhluta Bandaríkjanna og 60 árum seinna líka í suðurhlutanum. Í lok 19. aldar náðu Bandaríkin frá Atlantshafi til Kyrrahafs og þjóðin var orðin ein ríkasta og voldugasta þjóð heims.
22 Byltingar, þekking og réttindi fyrir 400–100 árum Breytingar sem gerast hratt eru kallaðar byltingar. Kóngar höfðu lengi ráðið yfir fólki og heimtað af því peninga og vinnu. Kirkjan vildi ráða skoðunum fólks og trú. Nokkrir voru ríkir og réðu miklu. Flestir voru fátækir og réðu engu. Svo fóru menn að benda á að þetta væri ekki réttlátt. Um 1790 gerði margt fátækt fólk í Frakklandi uppreisn gegn því að borga kónginum skatta en fá engu að ráða. Kóngurinn og aðalsmennirnir gáfust upp. Þetta er kallað franska byltingin. Smátt og smátt voru ríki stofnuð í Evrópu þar sem fólk kaus hverjir stjórnuðu landinu.
23 Menn gerðu alls kyns rannsóknir og tilraunir og uppgötvuðu ýmislegt. Þeir viðurkenndu að jörðin væri gömul, að hún væri hnöttur sem snerist í kringum sólina, að hún hefði þyngdarkraft, að lífverur hefðu þróast á löngum tíma og margt fleira. Ný þekking breiddist hratt út með bókum og háskólar voru stofnaðir þar sem fólk vann að rannsóknum. Vélar voru fundnar upp til ýmissa starfa. Fólk hætti að vinna heima og fór að vinna í verksmiðjum. Þetta er kallað iðnbylting. Þorp og borgir mynduðust í kringum verksmiðjurnar. Verkafólk í verksmiðjum átti erfiða ævi, fékk lítil laun og átti aldrei frí. Fátæk börn fengu ekki að fara í skóla en voru látin vinna í verksmiðjum. Fólk bjó í slæmum húsum. Reykur og efni frá verksmiðjunum menguðu umhverfið. Þetta lagaðist þegar verksmiðjufólk myndaði samtök og krafðist betri kjara. Oft þurfti fólk að fara í verkföll til að ná fram kröfum sínum.
24 Nýtt árþúsund síðustu 100 ár Á síðustu öld urðu hraðar breytingar. Flugvélar flytja fólk um heiminn á nokkrum klukkutímum. Í útvarpi og sjónvarpi eru fréttir og skemmtiefni alls staðar að. Netið tengir milljónir tölva með óendanlega miklu efni. Þjóðir sem í mörg þúsund ár vissu ekki hver um aðra geta nú haft dagleg samskipti eins og fjölskylda. Þótt margt fólk sé ríkt og njóti nýrrar tækni eru enn ótal margir í heiminum sem lifa líku lífi og forfeður þess og mæður hafa lengi gert. Margir eru svo fátækir að þeir þekkja ekki af eigin raun tækniundur nútímans. Um miðja öldina voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Þær reyna að hjálpa þjóðum að leysa deilur með því að tala um þær og sættast án þess að fara í stríð. Tækninni fylgja vandamál. Frá bílum, öðrum vélum og verksmiðjum koma efni sem hafa áhrif á náttúruna. Þau breyta loftslagi, óhreinka jörð, loft eða vatn svo að fólk og aðrar lífverur geta veikst og jafnvel dáið. Árið 1992 héldu Sameinuðu þjóðirnar stóran fund allra þjóða. Þar voru samþykktar reglur fyrir þjóðir til að fara eftir svo að ekki verði áfram farið illa með jörðina. Mannkynssagan lengist stöðugt. Alltaf fæðist nýtt og nýtt fólk og allir eiga að hafa sama rétt til að lifa og láta sér líða vel.
Tímabil og atriði sem fjallað er um
05984 Þessi bók er í flokki bóka sem ætlaður er nemendum í 1.–4. bekk grunnskóla. Yfirheiti þessa bókaflokks er Komdu og skoðaðu ... og við gerð námefnisins var tekið mið af áherslum námskrár í náttúrufræði og samfélagsgreinum. Kennsluefnið Komdu og skoðaðu sögu mannskyns saman- stendur af nemendabók og fjölbreyttu námsefni á vef með kennsluleiðbeiningum, verkefnum, sögum, fróðleikshorni o.fl. Þetta efni er að finna á: www.mms.is Í þessari bók, sem einkum er ætluð nemendum í 3.–4. bekk, er fjallað um valda þætti úr mannkynssögunni allt frá upphafi sögunnar til okkar daga. Sigrún Helgadóttir er höfundur efnis. Íris Auður Jónsdóttir teiknaði myndir. SÖGU MANNKYNS
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=