Kennsluleiðbeiningar og verkefni með frjálslestrarbókum í dönsku

5 FRJÁLSLESTUR Lestur Með því að lesa og því meira sem lesið er eykst máltilfinning og orðaforði á erlenda málinu auk þess sem nemendur ná meiri lestrarhraða eftir því sem þeir lesa meira. Margir nemendur vilja skilja hvert orð þegar þeir lesa á erlendu máli og vilja jafnvel þýða sem mest. Frjálslestur er góð leið til að venja nemendur af að vilja skilja hvert orð sem lesið er og leyfa sér að giska á merkingu orða út frá samhengi textans. Þannig þjálfast þeir einnig í að beita ágiskunaraðferð sem er mjög mikilvæg í frjálslestri. Nemendur sem eiga erfitt með lestur erlendra mála og/eða fá texta eða bækur sem eru fyrir ofan þeirra getustig, geta gefist upp við lesturinn ef þeir þurfa að fletta upp í orðabók hverju orðinu á fætur öðru til að átta sig á samhengi. Lélegur orðaforði, lítil þolinmæði og hægur lestrarhraði eru einnig ástæður fyrir erfiðleikum í lestri á erlendu tungumáli. Þess vegna skiptir máli að sú bók sem nemandi fær í hendur henti getu hans og áhugasviði. Frjálslestur er einstaklings athöfn og fer fram á forsendum hvers og eins. Nemandi les í hljóði og á eigin hraða. Það er takmarkað hversu mikla lestrarreynslu nemendur fá á erlendum málum við að lesa eingöngu námsbækur. Lestur á samfélagsmiðlum er ágætur svo langt sem það nær en það reynir ekki mikið á mismunandi lestraaðferðir, enda eru textarnir oft stuttir og einsleitir. Frjálslestur utan skóla er mikilvægur til að nemendur geti þróað góða lestrarfærni á erlenda málinu. Þetta á bæði við nemendur sem eru góðir í tungumálinu og þá sem eru getuminni. Nemendur sem eru getuminni eiga auðveldara með að lesa bækur þar sem ekki er allt of mikill texti á hverri síðu og það loftar vel um hann. Einnig er gott ef letur er í stærra lagi. Nemendum finnst oft best að fá að lesa frjálslestur/hraðlestur heima þar sem þeir geta ákveðið hvar og hvenær þeir lesa. Nemandi getur lesið á eigin hraða og þegar honum hentar og verður þá ekki stressaður vegna annarra nemenda sem lesa hraðar. Oft er of lítill tími í kennslustundum til lesturs og ekki alltaf nægilega mikil ró fyrir alla nemendur til að einbeita sér við lestur í hljóði. Þess vegna er góð hugmynd að setja frjálslesturinn fyrir heima. Ekki er ætlast til að nemendur skilji hvert orð í bókunum en að þeir átti sig á samhenginu og geti giskað á merkingu orða út frá samhengi. Þess vegna er ekki er mælt með að nemendur fái glósulista, heldur séu þeir hvattir til að giska á merkingu. Mörgum nemendum finnst gott að geta hlustað á upplestur og um leið fylgst með textanum. Þetta gagnast nemendum með lestrarörðugleika mjög vel og þá ekki síst í erlendum tungumálum. Kennarar eru hvattir til að benda nemendum á að upplestur á bókunum er að finna á vef Menntamálastofnunar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=