Kata og vofan
Til kennara og foreldra! Í Smábókaflokki Menntamálastofnunar er reynt að höfða til ólíkra áhugasviða barna með texta sem er innihaldsríkur þrátt fyrir einfalda framsetningu. Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar og lögð áhersla á að þær höfði bæði til tilfinninga og rökhugsunar og ekki síst til kímnigáfu lesenda. Smábókaflokknum fylgja ekki vinnubækur en á vefsíðu Menntamálastofnunar eru ýmsar kennsluhugmyndir. Þar eru sett fram dæmi um verkefni sem henta til einstaklingsvinnu og hópvinnu, í málfræði, ritun, myndvinnslu og munnlegri tjáningu. Umræður heima og í skólanum Bóklestur. Finnst ykkur gaman að lesa? Um hvað mynduð þið helst vilja lesa? Haldið þið að til séu svoleiðis bækur? Hvar gæti Kata helst fundið bók um vofu? Til hvers eru bókasöfn? Að segja sögu. Finnst ykkur gaman að hlusta á sögur? En að segja sögur? Hvað er líkt og hvað er ólíkt við að hlusta á sögu og að lesa sögu? Þekki þið einhvern sem segir skemmtilegar sögur eins og amma Kötu? Vofur. Hvers vegna skyldi Kata vilja lesa sögu um vofu? Hafið þið gaman af draugasögum? Hvað mynduð þið gera ef þið heyrðuð draugaleg hljóð úr risinu? Haldið þið að Kata hafi trúað því að alvöru vofa væri á ferð? Leikræn tjáning Sagan gefur ýmiss konar tilefni til leikrænnar tjáningar og látbragðsleikja. Til dæmis getur eitt barnanna verið Kata sem gengur á milli húsa í leit að draugabókinni. Önnur börn leika húsráðendur sem sýna með látbragði hvaða bók þeir eiga (bók um kisu, mús, orm og fleira sem börnin bæta sjálf við). Getið er upp á um hvað bókin fjallar, e.t.v. með aðstoð áhorfenda. Einnig er gaman að skoða hvernig vofur myndu hreyfa sig, syngja og dansa – ef þær væru til! Búa til bók Bók um vofur gæti verið eins og vofa í laginu. A4 blöð (eða stærri) eru brotin saman í miðju og útlínur vofu teiknaðar framan á, þó þannig að kjölurinn haldist að mestu heill. Síðurnar eru síðan klipptar til. Einnig má klippa vofumynd úr hvítum pappír og líma á svart spjald sem forsíðu á bók eða lita vofu með hvítum eða ljósum krítarlit (Neocolor eða „klessulitum“) á svartan pappír. Í bókina fer svo að sjálfsögðu krassandi draugasaga í máli og/eða myndum sem barnið semur sjálft!
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=