Íslendingaþættir

96 Halldór svarar: „Ekki skal ég þó oftar vera á konungsskipinu og ef hann vill hafa mitt föruneyti áfram þá vil ég hafa skip til stjórnar og eignast það.“ Bárður svarar: „Það er ekki við hæfi að lendir menn láti skip sín fyrir þér og ertu of heimtufrekur.“ Halldór sagðist þá ekki mundu fara. Bárður segir konungi hvað Halldór biður um, „og ef hásetar þess skips eru jafntraustir sem stýrimaður þá mun ganga vel.“ Konungur mælti: „Þótt Halldór fari hér fram á nokkuð mikið þá skal ég þó bregðast við því.“ Sveinn úr Lyrgju, lendur maður, stýrði skipi. Konungur lét kalla hann á tal við sig. „Svo er mál með vexti,“ segir konungur, „eins og þú veist að þú ert maður stórættaður. Þess vegna vil ég að þú sért á mínu skipi en ég mun þar fá annan mann til skipstjórnar. Þú ert maður vitur og vil ég einkum hafa þig til að ráðgast við.“ Hann segir: „Meir hefur þú haft aðra menn við ráðagerðir þínar hingað til og til þess er ég lítt fær, eða hverjum er þá skipið ætlað?“ „Halldór Snorrason skal fá það,“ segir konungur. Sveinn segir: „Ekki kom mér það í hug að þú mundir velja íslenskan mann til þess en taka mig frá skipstjórn.“ Konungur mælti: „Hans ætt er ekki verri á Íslandi en þín hér í Noregi og ekki er langt um liðið síðan þeir voru norrænir er nú byggja Ísland.“ Nú fer það fram sem konungur vill að Halldór tekur við skipinu og fóru þeir síðan austur til Oslóar, tóku þar veislur . tóku þar veislur merkir að konungur fór um landið og lét veita sér og mönnum sínum mat og húsaskjól um tiltekinn tíma (yfirleitt ekki lengur en þrjá daga)

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=