Íslendingaþættir

68 Þórður lendir í átökum L íða nú stundir og eitt haust þegar Þórður kom vestan af Englandi lagði hann skipi sínu upp í ána Nið og ýtti í burtu því skipi sem áður lá þar sem Þórður var vanur að hafa sitt skip. Þá var Eysteinn konungur í bænum og margt stórmenni. Þar voru Sigurður Hranason og Víðkunnur Jóansson og Ingimar af Aski. Hann var hinn ríkasti maður og mikill skapofsamaður. Hann átti skipið sem Þórður hafði ýtt í burtu og ræddu menn um það við Þórð að honum mundi hefnast fyrir að hann hafði ýtt skipi Ingimars í burtu en Þórður hlustaði ekki á það. Og nú er þeir Þórður báru varninginn úr skipinu þá finnur hann ekki tjald sem þar átti að vera, gengur síðan á skip Ingimars og finnur þar svein einn sem breitt hafði undir sig tjaldið. Þórður tekur sveininn höndum og rekur hann heim á undan sér í garðinn og lætur þar gæta hans, flytur síðan heim allt fé sitt. Og er Ingimar fréttir þetta þá verður hann mjög reiður, gengur þegar með nokkra menn að garði Þórðar og biður leysa manninn þegar í stað. Þórður svaraði, sagði að sér fyndist það ekki varlegt að láta ódæmdan þjóf ganga um bæinn. Ingimar svaraði, kvaðst halda að hann mundi ekki dæma menn hans til dauða og sagðist mundu koma öðru sinni og ná þá manninum og Þórður skyldi aldrei hafa farið verri för, sagðist ekki mega heita lendur maður ef hann hefði ekki við stafkarli einum íslenskum. Þá kvað Þórður vísu þar sem fram kemur að hinn ógurlegi harðstjóri sé að ógna honum, en þar sem stolið hafi verið af honum tjaldinu muni hann ekki láta þjófinn lausan, þrátt fyrir hótanir Ingimars. Nið hét áin sem Niðarós er kenndur við lendur maður er maður sem hefur fengið land að léni hjá konungi, þ.e. var eins konar héraðshöfðingi í umboði konungs

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=