Íslendingaþættir

43 Auðun hitti Harald konung S íðan lætur hann í haf og kemur í Noreg og lætur flytja upp varning sinn og þurfti nú meira að hafa fyrir því en í fyrra sinnið er hann var í Noregi. Hann fer nú síðan á fund Haralds konungs og vill efna það sem hann hét honum áður en hann fór til Danmerkur og heilsar konungi vel. Haraldur konungur tók vel kveðju hans, „og sest niður,“ segir hann, „og drekk hér með okkur.“ Og svo gerir hann. Þá spurði Haraldur konungur: „Með hverju launaði Sveinn konungur þér dýrið?“ Auðun svarar: „Því, herra, að hann þáði það af mér.“ Konungur sagði: „Launað mundi ég þér því hafa. Hverju launaði hann enn?“ Auðun svarar: „Gaf hann mér silfur til suðurgöngu.“ Þá segir Haraldur konungur: „Mörgum manni gefur Sveinn konungur silfur til suðurgöngu eða annarra hluta þótt ekki færi þeir honum gersemar. Hvað er enn fleira?“ „Hann bauð mér,“ segir Auðun, „að gerast skutilsveinn hans og bauð mér virðingarstöðu.“ „Vel var það mælt,“ segir konungur, „og launa mundi hann enn fleira.“ Auðun segir: „Hann gaf mér knörr með farmi þeim sem hingað er kominn til Noregs.“ „Það var stórmannlegt,“ segir konungur, „en launað mundi ég þér því hafa. Launaði hann því fleira?“ Auðun segir: „Hann gaf mér leðurhosu fulla af silfri og kvað mig þá ekki félausan ef ég héldi því þó að skip mitt bryti við Ísland.“ knörr er skip, ætlað til úthafssiglinga

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=