Íslendingaþættir

26 Ólafur konungur gaf Þorsteini auknefni E n er morgnaði stóðu menn upp. Gekk konungur til kirkju og hlýddi á messu. Eftir það var gengið til borða. Konungur var ekki sérlega blíður. Hann tók til orða: „Hefur nokkur maður farið einn saman í nótt til heimilishúss?“ Þorsteinn stóð þá upp og féll fram fyrir konung og sagðist hafa brotið gegn boði hans. Konungur svarar: „Mér þykir það ekki svo alvarleg yfirsjón, en þú sýnir það sem talað er um ykkur Íslendinga að þið séuð mjög einrænir , en varðst þú var við nokkuð?“ Þorsteinn sagði þá alla sögu sem farið hafði. Konungur spurði: „Hvers vegna baðstu hann að æpa?“ „Það vil ég segja þér, herra. Ég þóttist vita það, þar sem þú hafðir varað alla menn við að fara þangað einir saman, en skelmirinn kom upp, að við mundum ekki skilja án vandræða, en ég gerði ráð fyrir að þú mundir vakna, herra, er hann æpti og þóttist ég þá hólpinn ef þú yrðir var við.“ „Svo var og,“ sagði konungur, „að ég vaknaði við og svo vissi ég hvað fram fór og því lét ég hringja að ég vissi að ekkert annað mundi hjálpa þér. En hræddist þú ekki þegar púkinn tók að æpa?“ Þorsteinn svarar: „Ég veit ekki hvað það er, hræðslan, herra.“ „Var enginn ótti í brjósti þér?“ sagði konungur. „Reyndar var það svo,“ sagði Þorsteinn, „að við síðasta ópið lá við að ég yrði hræddur.“ einrænir merkir sérvitrir, sérlundaðir skelmir merkir þorpari, þrjótur

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=