Íslendingaþættir

24 „Hvaða kvalir hefur hann,“ sagði Þorsteinn, „sem hann þolir svo illa, svo hraustur maður sem hann hefur verið sagður?“ „Hann hefur ökklaeld.“ „Ekki þykir mér það svo mikið,“ sagði Þorsteinn, „fyrir slíkan kappa sem hann hefur verið.“ „Ekki er þá rétt á litið,“ sagði draugur, „því að iljarnar einar standa upp úr eldinum.“ „Mikið er það,“ sagði Þorsteinn, „og æptu eftir honum eitt óp.“ „Það skal vera,“ sagði púki. Hann sló þá í sundur á sér hvoftunum og setti upp gaul mikið en Þorsteinn vafði feldinum um höfuð sér. Honum brá mjög við óp þetta og mælti: „Æpir hann þetta ópið mest svona?“ „Fjarri fer um það,“ sagði draugur, „því að þetta er óp okkar drýsildjöflanna .“ „Æptu eftir Starkaði lítið eitt,“ sagði Þorsteinn. „Það má vel,“ kvað púki. Tekur hann þá að æpa í annað sinn svo óskaplega að Þorsteini þótti ótrúlegt í hversu mikið sá fjandi jafnlítill gat gaulað. Þorsteinn gerir þá sem fyrr að hann vafði feldinum að höfði sér og brá honum þó svo við að hann féll í yfirlið svo að hann vissi ekki af sér. Þá spurði púkinn: „Hví þegir þú nú?“ Þorsteinn ansaði þegar hann jafnaði sig: „Því þegi ég að ég undrast hve mikil ógnarraust liggur í þér, ekki meiri púki en mér sýnist þú vera, eða er þetta hið mesta óp Starkaðar?“ „Ekki er nærri því. Þetta er,“ segir hann, „heldur hið minnsta óp hans.“ hvoftur merkir kjaftur, gin drýsildjöful l merkir smádjöfull, púki

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=