Íslendingaþættir

102 Halldór í Hjarðarholti til æviloka H alldór Snorrason var mikill maður vexti og fríður sýnum, allra manna sterkastur og vopndjarfastur. Það vitni bar Haraldur konungur Halldóri að hann hefði verið sá af mönnum hans sem síst brygði við voveiflega hluti, hvort sem að höndum bar mannháska eða fagnaðartíðindi, þá var hann hvorki að glaðari né óglaðari. Ekki neytti hann matar eða drakk eða svaf meira né minna en hann var vanur hvort sem hann mætti blíðu eða stríðu. Halldór var maður fámæltur og stuttorður og sagði það sem honum fannst, skapstyggur og ómjúkur, kappgjarn í öllum hlutum við hvern sem hann átti um. En það kom illa við Harald konung er hann hafði nóga aðra þjónustumenn. Þeim kom ekki vel saman eftir að Haraldur varð konungur í Noregi. En er Halldór kom til Íslands gerði hann bú í Hjarðarholti. Nokkrum sumrum síðar sendi Haraldur konungur orð Halldóri Snorrasyni að hann skyldi ráðast enn til hans og lét það fylgja að hann skyldi fá meiri virðingu en áður ef hann vildi fara til hans og engan mann skyldi hann hærra setja í Noregi ótiginn ef hann vildi þiggja þetta boð. Halldór svarar svo er hann fékk þessa orðsendingu: „Ekki mun ég fara á fund Haralds konungs héðan af. Mun nú hvor okkar hafa það sem fengið hefur. Ég þekki skaplyndi hans. Veit ég fyrir víst að hann mun efna það sem hann lofar, að setja engan mann hærra í Noregi en mig ef ég kæmi á hans fund, því að hann mundi láta hengja mig á hinn hæsta gálga ef hann mætti ráða.“ voveiflegur merkir hræðilegur, hörmulegur ótiginn merkir maður sem ekki er af aðalsættum

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=