Ísland - Hér búum við

19 Haust Á haustin með lækkandi sól fjölgar lægðum en þeim fylgir úrkoma og hvassviðri. Úrkoma mælist því mest á Íslandi í október. Milli rigningardaga og lægða koma líka stillur og sólríkir dagar. Eitt af einkennum haustsins eru haustlitir gróðursins. Þá er gróðurinn að undirbúa sig fyrir veturinn. Á haustin er líka uppskerutími. Þá tökum við upp kartöflur og grænmeti. Kindunum er smalað af fjalli og lömbin send í sláturhús. Vetur Á veturna einkennist veðráttan af úrkomu, ýmist rigningu, slyddu, éli eða snjókomu. Þá geta komið kaldir frostdagar þegar loftið yfir landinu kemur að norðan úr Íshafinu. Ef það snjóar og frostdagarnir eru nógumargir getum við farið á skauta og skíði og rennt okkur á sleða. Vindur sem kemur sunnan úr höfum á það til að bera með sér mun hlýrra loft. Myrkrið á veturna gerir okkur kleift að skoða margt á himninum. Norðurljósin myndast þegar agnir frá sólinni lenda á lofthjúpi jarðar. Úrkoma er samheiti yfir það sem fellur af himnum, regn, slydda, él eða snjókoma.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=