Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

5 Hugmyndir Markmiðið með þessari sögu er að fá börnin til að velta fyrir sér eðli og uppruna hugmynda. Orðið hugmynd er í sjálfu sér dularfullt. Sögumaður veltir því fyrir sér í lok sögunnar hver sé munurinn á orði og hugmynd. Er það rétt hjá honum að orð sé ekki hugmynd? Hver er þá munurinn á orði og hugmynd? Getur verið að sum orð séu hugmyndir og önnur ekki? Hvernig getum við greint þar á milli? Eru allar hugmyndir myndir eins og orðið bendir til eða geta hugmyndir verið eitthvað allt annað en myndir í huganum? Er svo mögulegt að hugmynd sem við höfum um eitthvert fyrirbæri sé allt öðruvísi en fyrirbærið sjálft (hugmyndin um sólina)? Þessi umræða gæti svo leitt til pælinga um það hvort endalaust sé hægt að finna eða búa til hugmyndir um sama fyrirbærið. Önnur umræða í þessari sögu beinist að því að greina á milli góðra og slæmra hugmynda. Er hægt að finna út fyrir fram hvort hugmynd sé góð eða slæm? Hvert sækjum við viðmið til þess að greina þar á milli? Hver er munurinn á hugmyndinni um að fljúga með loftbelg í skólann og hugmyndinni um að stela nammi frá bróður sínum? Eru þær báðar slæmar? Eru þær slæmar af sömu ástæðu, að því gefnu að þær séu báðar slæmar? Hvernig prófum við hvort hugmyndir eru góðar eða slæmar? Er nauðsynlegt að framkvæma hugmyndina til að sjá hvort hún er góð eða getur verið nóg að prófa hana í huganum? Hvernig prófar maður hugmynd í huganum? Góður Guð Grunnstefið í þessari sögu er svokallaður bölsvandi sem jafnt lærðir sem leikir hljóta að velta fyrir sér. Hugmyndin um almáttugan, algóðan og alvitran Guð virðist í fljótu bragði stangast á við þá staðreynd að lífið er fullt af erfiðleikum og hörmungum. Af hverju hjálpar Guð okkur ekki alltaf þegar við biðjum hann um það? Er hann kannski alltaf að hjálpa okkur án þess að við vitum af því? Í sögunni er komið inn á hlutverk trúarbragða og tilgang lífsins. Einnig er tæpt á þeirri hugmynd hvort hugsun eða umhugsun geti verið hættuleg.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=