Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

53 voru líka mjög glaðir og óskuðu mér til hamingju. Það gekk allt vel í þessari ferð. Ég og bróðir minn höguðum okkur afskaplega vel og skiptumst á að veiða á besta veiðistaðnum allan tímann. Ég held að við séum orðin meiri vinir eftir þessa ferð. Ég er ákveðin í að reyna að hætta að stríða honum svona mikið. Systkini eiga að vera vinir. Pabbi hældi okkur mikið á leiðinni heim. Hann sagði að það væri til fyrirmyndar hvernig við höfðum leyst ágreininginn með veiðistaðinn. Hann sagði líka að það væri óskandi að allir í heiminum væru jafn fúsir til að viðurkenna rétt annarra og sýna sanngirni. Strax eftir ferðina fór ég til Fúsa vinar míns sem býr við sömu götu og ég. Fúsi var frekar dapur. Hann sagði mér að nýja hjólinu hans hefði verið stolið um helgina. Hann var líka reiður. Hann sagði: – Það hefur enginn rétt til að taka það sem aðrir eiga. Þetta minnti mig á það sem pabbi var að tala um á heimleiðinni. Hann var líka að tala um einhvern rétt. En það var ekki sami réttur og Fúsi var að tala um. Það eru sennilega til margir réttir. Nú var ég farin að hugsa eins og matreiðslumaður. Forréttur, aðalréttur, eftirréttur. Ég fór að flissa. – Hvað er svona fyndið? sagði Fúsi. Finnst þér fyndið að hjólinu mínu var stolið? – Alls ekki, flýtti ég mér að segja og varð alvarleg aftur. Mér finnst það mjög sorglegt. Þú varst bara að tala um einhvern rétt og ég fór óvart að hugsa um matreiðslu. Fyrirgefðu. Svo sagði ég honum frá deilunni um besta veiðistaðinn og það sem pabbi sagði um að virða rétt annarra. – Ég hef verið að hugsa um af hverju við þurfum að virða rétt annarra. Og líka hvað það séu margir svona réttir. – Og, sagði ég áköf, hvernig get ég vitað hvenær einhver er að taka rétt sem ég á og hvenær ég er kannski að taka rétt af öðrum. Kannski eftirrétt, sagði ég í gríni og það léttist aðeins brúnin á Fúsa. Við höfum nefnilega gaman af því að tala um heima og geima. Nú fórum við að keppast við að finna sem flesta rétti. Það kom okkur á óvart hvað við fundum marga. Áður en ég þurfti að hlaupa heim í mat kom Fúsi með eina spurningu sem við eigum örugglega eftir að tala mikið um seinna. Hún var einhvern veginn svona: Hafa allir sama rétt eða eru þeir mismunandi eftir fólki? Spurningarnar voru eiginlega tvær þótt þær séu líkar. Hafa allir menn alltaf jafnan rétt? Fúsi sem var allur orðinn hressari kallaði á eftir mér: – Fíflið sem stal hjólinu er hér með réttlaust. Ég fór að skellihlæja á hlaupunum, eins og hann hefði vald til að gera aðra menn algjörlega réttlausa. – Jafnvel reiðhjólaþjófar hljóta að hafa einhvern rétt herra einráður, kallaði ég til hans.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=