Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

Heimspeki sögur 42 Ofurhetjur Mig dreymir stundum að ég sé ofurhetja. Ekki Leðurblökumaðurinn, Köngulóarkonan eða Ironman eða einhver svoleiðis heldur ofurhetja sem ég hanna sjálf. Þær ofurhetjur sem hafa orðið kvikmyndastjörnur hafa flestar fyrst orðið til í teiknimyndablöðum. Ég er byrjuð að teikna mína ofurhetju sjálf og ég er sjálf í aðalhlutverki. Mín ofurhetja er náttúrulega flott og getur margt sem venjulegt fólk getur ekki. Búningurinn er mjög skrautlegur. Ég er ekki enn búin að ákveða hvað hún á að gera. Flestar ofurhetjur reyna að bjarga heiminum frá illmennum. Ég held að ofurhetjur séu ekki bara óvenjulegar vegna eiginleika sinna. Þær virðast heldur ekki hafa áhuga á neinu öðru en að hjálpa og bjarga fólki sem er í hættu. Óvinirnir í ofurhetjusögunum geta líka meira en flestir aðrir en þeir hafa af einhverjum ástæðum ákveðið að gera illt frekar en gott. Ég er að reyna að ákveða af hverju ofurhetjan mín ætti frekar að vera góð en vond. Í ævintýrunum fer oftast illa fyrir þeim sem eru vondir og þeir fá makleg málagjöld. Það fór til dæmis hræðilega fyrir úlfinum í Rauðhettu, ekki að hann hafi nú verið nein ofurhetja. Og líka vondu stjúpunni í Mjallhvíti og dvergunum sjö. Hún var nú ekki heldur nein ofurhetja en hún átti spegil sem var yfirnáttúrulegur. En svona held ég að þetta sé bara í ævintýrunum. Það er alveg örugglega til fullt af vondu fólki sem fær aldrei makleg málagjöld. Ég veit hvað það þýðir að fá makleg málagjöld. Sá sem fær svoleiðis gjöld fær það sem hann á skilið. Ég er samt alls ekki viss um hvernig hægt er að meta hvort málagjöld séu makleg. Hvað eru til dæmis makleg málagjöld fyrir þá sem stela frá öðrum? Hvort ætli sé betra að vera góð ofurhetja eða ill ofurhetja? Ætli sé ekki betra að vera góð ofurhetja? Vondar ofurhetjur geta aldrei eignast alvöru vini. Það hlýtur að vera erfitt að vera alveg vinalaus, jafnvel þótt maður sé ofurhetja.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=