Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

37 Nirfill og nískupúki Ég kallaði bróður minn nískupúka í gær. Líka nirfil. Hann sagði að það væri ekki satt. Hann væri bara sparsamur. – Ég get nú ekki séð að það sé neinn munur á því, sagði ég við hann. – Það er víst munur á því, hrópaði hann. Ég virtist hafa komið við einhverja auma taug í honum. – Jæja, sagði ég alveg róleg, þótt ég væri dálítið óróleg. Hver er þessi munur á því að vera nískur og sparsamur. Er það ekki níska að gefa mér aldrei nammi? – Í fyrsta lagi hef ég oft gefið þér nammi, asninn þinn, orgaði hann á mig, svo vil ég bara eiga það sem ég á lengi. Meira hvað hann var æstur. – Rólegur, sagði ég með svona sefandi röddu, það getur vel verið að þú hafir rétt fyrir þér. Ég sagði þetta nú bara til að róa hann. Svo bætti ég við: – Þú ert ágætur. Nákvæmlega það sem mér finnst eða hitt þó heldur, en þetta róaði hann. Við eigum greinilega erfitt með að skilja hvort annað. Ég og bróðir minn. Ég held nú reyndar að hann eigi í megnustu erfiðleikum með að skilja sjálfan sig. Hann á ágæta kærustu en þau eru alltaf að hætta saman og byrja saman aftur. Þetta er fáránlegt. Hann hlýtur að geta komist að því hvort hann vill vera með henni eða ekki. Hún líka. Sjálfsagt er þetta ekki bara honum að kenna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=