Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

35 – Ég held að kettir séu vitrari en hundar, sagði Fúsi. – Kettir, át ég upp eftir honum, það er ekki hægt að kenna þeim neitt. – Það er ekki rétt, þeir vilja bara ekki læra einhverjar hundakúnstir. Samt skilja þeir mikið og geta sagt hvað þeir vilja. Fúsi á kött og ég á hund. Ég nennti ekki að fara að metast um það einu sinni enn hvort Kátur minn eða Brandur hans væri klárari. Ég reyndi að láta mér detta eitthvert annað dýr í hug. Api kom fyrst upp í hugann en svo mundi ég allt í einu eftir því sem pabbi sagði mér um hegðun laxa. Þeir eru í ánum á sumrin og láta veiða sig með alls konar brögðum. Það er nú ekkert sérlega viturlegt. En þeir geta ratað til baka í sína á lengst utan úr hafi. Ég held að enginn viti hvernig þeir fara að þessu. Svo ég stakk upp á að lax væri vitrasta dýrið. – Lax, stundi Fúsi, er ekki í lagi með þig? Þeir eru ekki einu sinni með heila. Hann var mjög viss í sinni sök. – Þeir eru með kvarnir. Það er rétt hjá Fúsa. Hvernig fara þeir þá að því að rata langar leiðir heim í ána sína á vorin? Mér finnst það benda til þess að þeir búi yfir mikill skynsemi. – Matur, kalla pabbi og mamma Fúsa í kór, þá verð ég að drífa mig heim. En mig langaði að stinga upp á einni hugmynd í viðbót. – Hvað með manninn sjálfan? Er hann ekki bara vitrasta dýrið? – Maðurinn er ekki dýr, sagði Fúsi. Fúsi var aldeilis öruggur með sig í dag. – Ertu nú alveg viss um það? Ég rauk heim til mín í mat. Að vita Hvernig veistu að Jón er stór? Hvernig veistu að Gunna er skemmtileg? Hvernig veistu að það er vont veður úti? Hvernig veistu að Esjan er fallegt fjall? Hvernig veistu hvort þú ert góður í fótbolta? Hvernig veistu hvort annað fólk er gott? Hvernig veistu hvað þig langar til að verða þegar þú verður stór? Hvernig veistu hver forseti Íslands er? Hvernig veistu að það sem þú sérð í sjónvarpi er raunverulegt?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=