Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

Heimspeki sögur 30 Bróðir minn, nískupúkinn, er skrýtinn. Hann veit að það er óhollt að reykja en samt heldur hann áfram að reykja. Svo segir hann við mig að ég eigi aldrei að byrja að reykja. Hvernig er hægt að taka mark á fólki sem segir eitt og gerir annað? Úps, nú er ég farin að tala eins og ég sé sjálf heilög eða eitthvað svoleiðis. Samt reyni ég yfirleitt að vera góð og gera það sem ég held að sé rétt að gera. Í augnablikinu man ég samt ekki eftir neinu illu sem ég vil ekki gera en geri samt. En það er víst auðveldara að sjá hvað aðrir gera rangt en maður sjálfur. Það segir kennarinn að minnsta kosti oft, sérstaklega þegar verið er að klaga einhvern. Og bætir gjarnan við: – Það er auðveldara að sjá flísina í auga náungans en bjálkann í sínu eigin auga. Ég veit ekki hvaða náunga hann er að tala um. Þori ekki að spyrja, þetta gæti verið einhver vinur hans. Ég veit að bjálki er það sama og stór spýta. Ég skil þetta ekki. Ég segi bara eins og amma segir oft við sjálfa sig þegar hún skilur ekkert í því hvernig fólk lætur: – Maðurinn er ekki með öllum mjalla. Það er víst afi sem oftast er ekki með öllum mjalla. Samkvæmni Af hverju erum við stundum löt þegar við eigum að vera dugleg? Af hverju grípum við fram í fyrir öðrum en verðum reið þegar aðrir grípa fram í fyrir okkur? Af hverju meiðum við aðra en viljum ekki að aðrir meiði okkur? Af hverju stríðum við öðrum en finnst vont þegar aðrir stríða okkur? Af hverju vill sumt fullorðið fólk að börn hlýði þegar það sjálft hlýðir ekki öðrum? Af hverju eru sumir alltaf að segja öðrum að gera það sem þeir vilja ekki gera sjálfir? Breyskleiki/illska Af hverju keyra sumir fullorðnir hraðar en hámarkshraði leyfir? Af hverju borða sumir allt of mikið nammi? Af hverju eru til krakkar sem hafa gaman að því að kvelja jafnaldra sína? Af hverju er til fólk sem er ekki gott við börn? Af hverju gerir fullorðið fólk eitthvað sem það veit að það á ekki að gera? Af hverju gera börn stundum það sem þau vita að þau eiga ekki að gera?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=