Hugrún – Sögur og samræðuæfingar
Heimspeki sögur 24 Hræðslupúki Ég er ekkert viss um hvort ég trúi á Guð eða ekki. Í síðasta lífsleiknitíma sagði kennarinn að á Íslandi ríkti trúfrelsi. – Hvað er trúfrelsi? spurði Gunna bekkjarsystir mín. Ég verð að játa að á þeirri stundu sem hún bar upp spurninguna fann ég fyrir þakklæti. Það entist nú reyndar stutt. Ég er sjaldan þakklát mjög lengi í einu. Mér fannst spurningin góð og mig langaði reyndar til að spyrja hennar sjálf. Sennilega hefði ég samt ekki þorað það. Ég er oft hrædd við að spyrja að einhverju jafnvel þótt mig langi mikið að vita svarið. Ég hef mikið hugsað um við hvað ég er eiginlega hrædd. Mér hafa dottið í hug margar hugmyndir að svari. En engin þeirra hefur verið nógu góð. Að einu hef ég þó komist. Svörin mín hafa öll þann galla að fleiri spurningar vakna sem eru alveg jafn erfiðar og sú fyrsta. Um tíma hélt ég til dæmis að þetta væri feimni, ég væri bara svona feimin stelpa sem þyrði ekki nema stundum að spyrja um það sem hana langaði að vita. Fljótlega fór ég mikið að hugsa um hvað það er að vera feimin. Þá var komin ein erfið spurning til að svara. Og önnur mjög erfið spurning kviknaði fljótt þegar ég fór að hugsa málið betur. Hvernig varð ég þá feimin? Ég held alltaf áfram að spyrja sjálfa mig svona spurninga. Jafnvel þótt ég verði oftast bara meira rugluð í ríminu. Fyrst ég held áfram að skoða líf mitt og heiminn á þennan hátt þá hlýtur það að vera það sem ég vil gera. Er það ekki? En stundum er þetta svo erfitt að ég fæ svona hnút í magann. Kannski væri ég bara orðin rugluð í kollinum ef Fúsi besti vinur minn hefði ekki líka mikinn áhuga á alls konar spurningum. Við spjöllum oft heilmikið um svona erfiðar spurningar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=