Hugrún – Sögur og samræðuæfingar
10 inntak í sögunum Veiðiferðin Þessi saga fjallar um sanngirni. Sögupersónan gefur sér að það hljóti að vera komið að henni að veiða á besta veiðistaðnum þegar bróðir hennar hefur verið þar drjúga stund og veitt vel. Bróðir hennar er ekki á sama máli í upphafi. Hvort hefur rétt fyrir sér? Í þessari umræðu gildir að fá börnin til að draga sem flest sanngirnisviðmið fram í dagsljósið. Eitt sanngirnissjónarmið segir að allir eigi að fá eftir þörfum, annað að allir eigi að fá jafnt, enn annað að verðleikar hvers og eins eigi að ráða skiptingunni á gæðum. Veiðiferðin bjargast fyrir horn þegar bróðirinn lætur undan og færir sig um set. Var hann að sýna systur sinni sanngirni, sjálfum sér eða jafnvel pabba sínum? Eða hefur undanlátssemi hans ekkert með sanngirni að gera? Undanlátssemi hans virðist samt hafa haft djúp áhrif á systur hans og skapað vilja til að sýna litlu systur sinni sanngirni. Var það sanngjörn niðurstaða að þau skiptust á að veiða á besta staðnum? Hvers vegna? Er alltaf sanngjarnt að skipta jafnt á milli? Börnin eiga m.a. að fá tækifæri til þess að koma með dæmi um aðstæður þar sem jöfn skipti eru þvert á móti alls ekki sanngjörn. Eftirréttur Í þessari sögu er aftur fjallað um rétt. Hér gefst tækifæri til þess að ræða um allt mögulegt sem lýtur að rétti fólks. Eignarrétturinn er þeim ofar- lega í huga vegna stolna hjólsins. En þegar sögumaður segir Fúsa frá vandamálinu um besta veiðistaðinn fara þeir félagar að ræða margs konar rétt. Þeir komast að því að við höfum margvíslegan rétt. Hvaðan kemur rétturinn til eins eða annars? Getur réttur eins stangast á við rétt annars? Er hægt að hafa veikan rétt í einu en sterkan í öðru? Leyndarmálið Í þessari sögu er áherslan á skylduhugtakið en einnig það hvernig réttur og skylda spila saman. Ber sögumanni skylda til þess að kanna hver á peninginn sem hann fann? Ef svo er á hverju byggist sú skylda? Hefur gamla konan í kjallaranum rétt til þess að sögumaður geri tilraun til að finna eigandann? Hver er munurinn á skyldu og rétti?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=