Hugrún – Sögur og samræðuæfingar
8 inntak í sögunum Nirfill og nískupúki Enn einu sinni takast systkinin á. Sögumaður sér ekki mikinn mun á nísku og sparsemi. Fáið börnin til þess að reyna að greina á milli þessara tveggja hugtaka. Af hverju eiga systkinin erfitt með að skilja hvort annað? Hvað veldur því að fólk sem talar sama tungumál skilur ekki hvert annað? Tilgáta sögumanns er að vandinn liggi hjá bróðurnum. Að hann skilji ekki einu sinni sjálfan sig. Er hægt að misskilja sjálfan sig? Hvað felst í því? Í seinni hluta sögunnar er farið út í aðra sálma. Sögumaður setur fram tilgátu um að heimurinn sé sífellt að breytast. Tilgátan sem hann setur fram á að skýra út af hverju þekking okkar á heiminum breytist dag frá degi. Fáið börnin til að segja skoðanir sínar á tilgátunni og fáið þau til að velta fyrir sér öðrum tilgátum um það hvers vegna kenningar um heiminn séu alltaf að breytast. Til dæmis að vísindamenn eru alltaf að gera nýjar uppgötvanir sem kollvarpa því sem áður var talið rétt. Risi og trítill Þessi saga er stef við Gúlliver í Putalandi. Markmið sögunnar er að fá börnin til að velta fyrir sér hvað felist í því að vera frjáls. Sagan gefur tilefni til þess að ræða mismunandi tegundir frelsis. Eitt er að vera frjáls undan oki, annað er að hafa frelsi til að velja hvernig lífi þínu skal varið. Jafnvel þótt við séum ekki undir utanaðkomandi oki getur hugur okkar verið fjötraður. Hvers konar fjötrar eru innri fjötrar? Hvernig hefta þeir frelsi okkar? Getum við leyst okkar innri fjötra sjálf eða þurfum við hjálp til þess? Í þessari sögu gefst einnig tækifæri til að ræða óendanleikann. Getur verið að putarnir séu óendanlega margir? Hvað með tölur, hugsanir og vegalengdir?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=