Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök

88 Dvergasteinn Prestssetrið á Seyðisfirði var í fyrndinni vestan eða sunnan fjarðar; en ekki greinir frá því, hvað það hafi þá heitið. Í grennd við það var stór steinn, og trúðu menn því fullt og fast, að í honum byggju dvergar, og því var hann kallaður Dvergasteinn. Þegar fram liðu tímar, þótti staðurinn og kirkjan óhaganlega sett þeim megin fjarðarins, og var því hvort tveggja flutt þangað, sem þau eru nú, hinum megin við fjörðinn. Steinninn stóri varð eftir, eins og nærri má geta. En þegar kirkjusmíðinni var lokið að mestu, varð mönnum starsýnt á að sjá hús koma siglandi handan yfir fjörðinn og stefna beint þangað, sem kirkjan stóð. Heldur það áfram, unz það kennir grunns, og nemur þá staðar í fjörunni. Urðu menn þess þá vísari, að Dvergasteinn var þar kominn með íbúum sínum, dvergunum. Kunnu þeir ekki við sig, eftir að kirkjan var flutt, og drógu sig því á eftir henni. En til ævarandi minningar um guðrækni dverganna var prestsetrið kallað Dvergasteinn. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri Þjóðskáld Orðið þjóðskáld er notað sem sæmdarheiti yfir nokkur af fremstu og vinsælustu skáldum Íslendinga. Að baki þessu hugtaki býr sú viðurkenning að þjóðin hlýði á mál skáldsins og að skáldið tali máli hennar. 19. öldin í íslenskum bókmenntum hefur stundum verið nefnd öld þjóðskáldanna. Þá eignaðist þjóðin Bjarna Thorarensen og Jónas Hallgrímsson, Steingrím Thorsteinsson, Benedikt Gröndal og Matthías Jochumsson o. fl. Á 20. öldinni má nefna Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Stein Steinarr en síðast en ekki síst Halldór Laxness eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955. Þroskasaga Skáldsögur sem lýsa því hvernig söguhetja þroskast frá æsku til unglings- eða fullorðinsára eru kallaðar þroskasögur. Sögurnar eru oft sagðar í 1. persónu. Í þeim fær lesandinn að fylgjast með hvernig reynsla markar sín spor á þroskabraut söguhetjunnar sem oftar en ekki öðlast dýrmæta reynslu sem gerir hana hæfari til að takast á við lífið fram undan. Sem dæmi um þroskasögur mætti nefna bækur Ólafs Hauks Símonarsonar, Gauragang og Meiri gauragang.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=