Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök

69 Sjónarhorn Þegar ljósmyndari tekur mynd velur hann sér sjónarhorn. Hann getur tekið myndina ofan af húsþaki og yfir stórt svæði, staðið fyrir neðan háa byggingu og tekið myndina upp eftir byggingunni, svo dæmi sé tekið. Sjónarhornið sem hann velur hefur mikil áhrif á útkomuna og upplifun þess sem horfir á myndina. Staða höfundar eða sögumanns í skáldskap er skyld sjónarhorni ljósmyndarans þótt hún sé annars konar. Sjónarhornið er einn þáttur í því sem kallað er frásagnarháttur. Höfundur getur verið sýnilegur eða fjarlægur, hann getur ákveðið að vera alvitur og segja frá því sem allar persónur hugsa eða hann getur takmarkað vitneskju sína við eina aðalpersónu. Hann getur einnig staðið fyrir utan hug persóna og sagt frá í 3. persónu eða notað fyrstu persónu frásögn. Hann getur jafnvel ákveðið að nota fleiri en eina aðferð í sama skáldverki. • Sögumaður er alvitur . Hann veit allt, sér í hug margra eða allra persóna. Hann segir frá því hvað allar eða flestar persónur hugsa, hvernig þeim líður, hvað þeim finnst. • Sögumaður takmarkar vitneskju sína . Hann sér aðeins í hug einnar persónu eða fárra og segir hvað þær hugsa. Öðrum persónum lýsir hann utan frá, segir hvað þær segja eða gera. Algengt er að sögumaður taki sér stöðu við hlið einnar aðalpersónu og lýsi atburðum frá sjónarhorni hennar. • Sögumaður er hlutlægur . Hann stendur fyrir utan sjálfa atburðarásina og lýsir því sem á sér stað á hlutlægan hátt. Segir frá því sem aðrir segja og gera en aldrei hvað þeir hugsa. • Fyrstu persónu frásögn. Sagan er sögð út frá sjónarhorni einnar persónu sem sér ekki í hug annarra persóna. Einhver ég segir frá.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=