Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök

66 Rímur Rímur eru langir ljóðabálkar sem algengt var að kveða í íslenskum baðstofum fyrri alda. Í þeim er sögð saga sem oftast er þekkt og eru rímurnar þannig nokkurs konar endursögn. Yrkisefnið var einkum sótt í samtímaviðburði, erlendar skemmtisögur, biblíuna, þjóðtrúna og ævintýri. Oft eru rímur byggðar á riddarasögum og fornaldarsögum Norðurlanda. Stundum er aðeins hluti sögu yrkisefni. Rímurnar skiptust í kafla og var hver kafli ein ríma. Skáldin kepptust við að vera frumleg og notuðu margs konar rímnahætti, fjölbreytt orðaval og myndmál. Rímnakveðskapur hófst á Íslandi á 14. öld og var vinsæll allt fram á 20. öld. Á 19. öld þótti mörgum sem rímnakveðskapurinn væri úr sér genginn og gagnrýndu hann fyrir að vera heldur ómerkilegur kveðskapur. Til að byrja með voru rímurnar höfundalausar en farið var að nafngreina höfunda þeirra á lærdómsöld. Rómantíska stefnan Rómantíska stefnan er tímabil í bókmenntasögu. Hún kom fram í Evrópu í lok 18. aldar en áhrifa hennar gætti ekki á Íslandi fyrr en nokkru síðar. Rómantíska stefnan tók við af upp- lýsingarstefnu. Í stað þess að leggja áherslu á fræðslu og nytsemi má greina áherslu á tilfinn- ingar og ímyndun, ættjarðarást og aðdáun á fornöld. Vandamál samtíðar skipta rómantísk skáld litlu máli. Þjóðsagnasöfnun, sakamálasögur og reyfarar eiga rætur í þessu tímabili og einnig hrollvekjur. Á Íslandi fylgdi rómantísku stefnunni mikill áhugi á sögu þjóðarinnar, einkum fyrstu öldunum. Barátta fyrir þjóðfrelsi tengist stefnunni og mikið er til af hvatningarljóðum frá þessum tíma. Árið 1850 var fyrsta íslenska skáldsagan gefin út, Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen Rómantíska stefnan breytti lífsviðhorfi fólks og skapaði nýtt verðmætamat. Skáldin höfðu háar hugmyndir um köllun sína, innblásturinn var náðargáfa og skáldskapurinn hafinn yfir daglegt strit. Þau sungu náttúrunni lof, fegurð fjalla, blárra vatna, niðandi fossa, dimmra gljúfra og grænna skóga. Einkenni rómantísku stefnunnar • tilfinningar • ímyndun • söfnun þjóðsagna • þjóðfrelsi • náttúrudýrkun Helstu skáld tímabilsins Benedikt Gröndal (1826–1907) Bjarni Thorarensen (1786–1841) Grímur Thomsen (1820–1896) Jón Thoroddsen (1818–1868) Jónas Hallgrímsson (1807–1845) Kristján Jónsson fjallaskáld (1842–1869) Matthías Jochumsson (1835–1920) Páll Ólafsson (1827–1905) Steingrímur Thorsteinsson (1831–1913) Sveinbjörn Egilsson (1791–1852)

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=