Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök
61 Prósaljóð Prósaljóð er stuttur ljóðrænn texti í óbundnu máli. Orðaval ljóðanna, hljómur og myndmál er skáldlegt en þau hafa enga erindaskiptingu eins og bundið mál. Prósaljóð eru skyld örsögum en texti þeirra er knappari og hnitmiðaðri. Árið 1922 kom út fyrsta íslenska prósaljóðabókin. Hún hét Flugur og höfundur hennar Jón Thoroddsen. Hann lést tveimur árum síðar, aðeins 26 ára. Einu sinni var stúlka sem hét Rauðhetta. Eða kanski Bláslæða. Hét hún annars Hvítskupla? Hún var úti í skógi með egg og vín (Sumir segja aldin og mjólk) sem hún gaf þremur baungsum. Hún lék sér við þá og braut gullin þeirra. Þeir fóru burt skælandi. Hvítskupla (eða hvaðsemhúnnúannarshét) lagðist þá til svefns og svaf í heila öld. Kríngum hana óx þyrnigerði. Sætasti bángsinn sem var reyndar úlfur felldi álagahaminn og breyttist í stóran og sterkan skógarhöggsmann sem líka var prins. Hann hjó sér braut gegnum þyrnigerðið og vakti Bláslæðu (Hét hún annars Rauðhetta?) með kossi. Þá mælti hún: – Skelfing rekurðu upp stór augu. – Já, svaraði hann: Ég er að glápa á þig. – Svaka tennur ertu með, sagði hún þá. – Já, það er til þess að ég geti bitið þig í brjóstin. Hér lýkur Mjallhvítar sögu. Dagur Sigurðarson Thoroddsen
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=