Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök

59 Úr Leysingu Þorgeir verzlunarstjóri var tæplega meðalmaður á hæð og svaraði sér vel. Hann var fölleitur og skarpleitur, hafði verið fríður sýnum á yngri árum, og bar andlitið enn þess vott. Hann hafði þunt alskegg, sem hafði verið dökkjarpt og nú var orðið nokkuð hæruskotið. Klauf það sig lítið eitt undir miðri hökunni, en uppi á vöngunum var það naumast annað en hýjungur. Hann var orðinn sköllóttur framan í höfðinu, en hárið í kring var hrokkið og farið að grána. Andlitið var harðlegt, en þó þreytulegt. Hrukkurnar voru djúpar, en ekki margar, hörundið móleitt og veðurbitið. Augun lágu innarlega undir dökkum brúnum. Þau voru lítil, grá og harðleg, og tillitið hvast. Nefið var beint og nokkuð hátt, kinnbeinin farin að standa örlítið út og markaði greinilega fyrir augnatóftunum að neðanverðu. Varirnar voru þunnar, lágu fast saman og sáust vel í gegnum skeggið. Drættirnir kringum munninn voru djúpir og skarpir. Allur bar svipurinn vott um kjark og sterkan vilja; en nú á síðari árum brá þar oft fyrir þunga og þreytu, sem aldrei hafði sézt þar áður. En jafnframt virtist Þorgeir æ betur og betur fá vald yfir svipbreytingum sínum. Honum hafði jafnvel tekist að temja svo andlitsdrættina, að þeim brá hvergi við geðbrigði hans og gátu enda stundum sýnt alt annað hugarástand en það, sem inni fyrir ríkti. Þorgeir var orðinn dulari í skapi en áður að sögn þeirra, sem lengi höfðu þekt hann. Nú var erfitt að sjá það á honum, hvort honum líkaði betur eða ver. Jón Trausti Hlutverk aukapersóna Aukapersóna getur varpað ljósi á aðal- persónu með því að: • vera andstæða hennar og vekja þannig athygli á t.d. kostum eða jafnvel göllum. • glíma við vandamál sem aðalpersónan bregst við og sýnir þar með kosti sína, styrk eða veikleika. • fylla upp í sögusvið Bein og óbein lýsing persóna Persónum í skáldverki er oftast lýst bæði beint og óbeint en stundum er önnur leiðin meira áberandi: Bein lýsing: Persónum er lýst nákvæmlega, sagt hvernig þær líta út, t.d. hæð þeirra, aldur, hára- og augnlitur, holdafar og klæðnaður, jafnvel innræti, framkoma og hegðun. Óbein lýsing: Persónur lýsa sér sjálfar eða lesandanum er látið eftir að draga upp mynd í huga sér og mynda sér skoðun á þeim með því að lesa milli línanna, með því að meta framkomu og hegðun og jafnvel viðbrögð annarra í sögunni við persónunum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=