Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök

52 Málpípa Stundum vill höfundur koma ákveðnum boðskap á framfæri í skrifum sínum. Til þess eru ýmsar leiðir. Ein þeirra felst í því að nota eina af persónum sögu til að koma boðskapnum á framfæri með orðum sínum eða gjörðum. Slík persóna er kölluð málpípa höfundar. Algengt er að höfundar barnabóka geri persónur sagna sinna að málpípum sínum í siðferðislegum eða uppeldislegum tilgangi en þær finnast einnig í fleiri gerðum skáldskapar. Minni Algengt er að atburðarás eða lýsing á hegðun persóna sé endurtekin í skáldskap, komi fyrir aftur og aftur í ýmsum bókum. Slíkt er kallað minni og hefur svipað hlutverk og tákn. Það gefur textanum ákveðinn hugblæ auk þess sem það merkir eitthvað annað og meira en aðeins það sem það stendur fyrir. Dæmi um minni í ævintýrum er t.d. stjúpmæðraminnið, ferðalagið, þrautirnar þrjár, týndi sonurinn og álög. Önnur þekkt minni eru t.d. ást í meinum, glæpur og missætti elskenda. Ýmis fyrirbæri náttúrunnar koma líka fyrir sem minni, t.d. haust og sólarupprás. Stjúpmæðraminnið kemur fyrir í sögu eins og Öskubusku og Mjallhvíti og dvergunum sjö. Þar er stjúpmóðurinni lýst sem vondri konu sem vill losna við stjúpdóttur sína. Þekkt minni úr ævintýrum er þegar mennskur maður kemst undan ógnarvaldi með því að kasta einhverju aftur fyrir sig sem verður að fjalli, vatni, eldi eða skógi – svipað og í sögunni um Búkollu. Minnisvísur Ein tegund af kveðskap eru minnisvísur sem tilheyra svokölluðum lausavísum. Minnisvísur hafa ekki mikið fagurfræðilegt gildi en þær fela í sér reglur eða fróðleik svo einfaldara sé að muna hann. Vísan um mánuðina er dæmi um vísu af þessu tagi. Hún hentar vel til þess að muna hversu margir dagar eru í hverjum mánuði. Minni • vonda stjúpmóðirin • þrautirnar þrjár • týndi sonurinn • kolbíturinn • haust • lækjarniður

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=