Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök
50 Lærdómsöld Bókmenntasögu er skipt í nokkur tímabil. Eitt þeirra kallast lærdómsöld. Það nær yfir rúmar tvær aldir, frá 1550 til 1770. Upphaf lærdómsaldar á Íslandi markast af siðaskiptum, þ.e. þegar Íslendingar skiptu úr kaþólskri trú í lútherska. Lok tímabilsins markast af auknum áhrifum fræðslu og vísindahyggju með stefnu sem oft er kölluð upplýsing eða upplýsingarstefna. Lærdómsöldin einkenndist af nýjum áhuga á fornbókmenntum Íslands sem og notkun á prentverki sem var nýjung. Bókleg þekking og lærdómur var þá hafður í hávegum og ýmsir fengu viðurnefnið „lærði“, svo sem Arngrímur lærði og Jón lærði. Hins vegar gagnaðist þekking hinna „lærðu“ manna alþýðunni lítið. Hag þjóðarinnar hnignaði á flestum sviðum og framfarir voru litlar sem engar enda er þetta einhver sorglegasti kafli þjóðarsögunnar með einokunarverslun, harðindi, plágur, náttúruhamfarir og galdrabrennur. Eitt helsta skáld tímabilsins er sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson. Af því sem var ritað ber helst að nefna annála, rímur, predikanir, Biblíuþýðingar, sálma, sjálfs- ævisögur, heilræðakvæði og ádeilukveðskap. Kveðskapur á lærdómsöld einkenndist m.a. af trúarhita. Nokkur höfuðskáld tímabilsins Arngrímur Jónsson lærði (1568–1648) Einar Sigurðsson í Eydölum (1538–1626) Hallgrímur Pétursson (1614–1674) Jón Magnússon (1610–1696) Stefán Ólafsson (1620–1688) Gefðu að móðurmálið mitt, minn Jesú, þess ég beiði, frá allri villu klárt og kvitt krossins orð þitt út breiði um landið hér, til heiðurs þér helst mun það blessun valda, meðan þín náð lætur vort láð lýði og byggðum halda. Hallgrímur Pétursson Einkenni • prentverk • áhugi á fornsögum • sálmar • sjálfsævisögur • rímnakveðskapur • drungi
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=