Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök
13 Bein og óbein ræða Bein ræða er notuð þegar eitthvað er haft orðrétt eftir fólki. Bein ræða er afmörkuð á einhvern hátt, yfirleitt með gæsalöppum. Þegar óbein ræða er notuð er ekki endilega haft orðrétt eftir fólki en þess gætt að innihaldið komist rétt til skila. Stundum þarf að hnika orðaröð eða bæta inn orði til að orðalagið verði gott. Í fréttatexta er algengt að sjá óbeina ræðu. Bein ræða er mikið notuð í þjóðsögum. Sögumaður eða rithöfundur getur valið milli þess að nota beina ræðu eða óbeina. Með því að láta persónurnar tala í staðinn fyrir að hafa eftir þeim það sem þær segja má gæða textann meira lífi. Biskupasögur Biskupasögur tilheyra flokki íslenskra fornsagna. Í þeim er rakin saga íslensku biskupanna í Skálholti frá 1056 og á Hólum frá 1106. Þær voru flestar skráðar á 13. og 14. öld. Biskupasögur skiptast í helgar ævisögur og helgisögur. Helgisögur fjalla um dýrlinga sem gátu gert kraftaverk. Hungurvaka er elst biskupasagna. Í henni er sögð saga fimm fyrstu biskupanna í Skálholti. Oft eru höfundar biskupasagnanna óþekktir. Boðskapur Skilaboð eða lærdómur sem lesandi á að draga af sögu er kallaður boðskapur. Einstaka sinnum er boðskapurinn tekinn fram í hnitmiðaðri línu í lok sögu sem nokkurs konar eftir- máli. Algengara er þó að lesandi eigi að átta sig á honum sjálfur. Stundum notar höfundur einhverja persónu sem málpípu fyrir skoðun sína eða lífsviðhorf. Boðskapur sögu er ekki alltaf alveg ljós og jafnvel sér lesandinn annan boðskap en þann sem höfundur hafði sjálfur í huga. Til þess að finna boðskap sögu getur verið gott að spyrja: Hvað vill höfundur segja? Hvaða skilaboðum vill hann koma á framfæri? Hvaða lærdóm vill hann að lesandinn öðlist? Úr bókaumfjöllun „Sagan hefur mjög skýran boðskap, annars vegar til íslensku þjóðarinnar um að gleyma ekki að standa vörð um náttúru sína. Hins vegar er boðskapurinn um að mannkostir verða ekki mældir í merkjavöru, vinafjölda á Facebook eða fjölda utanlandsferða.” Dæmi um boðskap • siðferðileg mál • hugsa vel um náungann • vera fordómalaus • lifa heilbrigðu lífi • sinna samfélagsskyldum • vera heiðarlegur • hugsa vel um náttúruna
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=