Hugfinnur - handbók um bókmenntahugtök
9 Atburðarás Hver saga hefur ferli þar sem eitt leiðir af öðru, svokallaða atburðarás eða keðju atburða. Stundum er atburðarásin einföld og auðvelt að átta sig á því hvað gerist næst. Hún getur líka verið flókin, sundurslitin og óljós, hæg eða hröð, óvænt eða spennandi, ævintýraleg eða hversdagsleg. Atburðarás er hluti af byggingu sögu og er oft nefnd flækja. ÆVINTÝRALEG og HRÖÐ ATBURÐARÁS Skurðstofulíf er nýr og spennandi framhaldsmyndaflokkur sem hefur göngu sína á skjánum innan skamms. Hann gerist á nútímasjúkrahúsi í Toronto í Kanada og fjallar fyrst og fremst um aðstoðarfólkið á skurðstofunni en ekki lækna og hjúkrunarfólk eins og venjan er í þáttum af þessu tagi. Þættirnir eru nýstárlegir og lögð er áhersla á hraða og spennandi atburðarás og vel klipptar upptökur þar sem ýmislegt óvænt gerist í hverjum þætti. Meðal leikara eru tveir Íslendingar sem hafa verið búsettir vestanhafs um áraraðir. SKS Atómskáld Um miðja 20. öld ortu ýmis ljóðskáld óhefðbundin ljóð þar sem dregið var úr notkun ljóð- stafa og ríms. Myndmálið var kraftmikið og yrkisefnin frábrugðin því sem fólk átti að venjast. Í skáldsögunni Atómstöðinni (1948) eftir Halldór Laxness koma fyrir undarleg skáld sem nefnast atómskáld. Orðið var síðan notað um hóp skálda sem orti óbundin ljóð. Orðið atómskáld var því upphaflega uppnefni. Andstæðingar breytinga í ljóðagerð gripu það á lofti og upp- nefndu ungu skáldin með þessu orði. Voru þau ásökuð um að geta ekki ort, ljóð þeirra væru ekki skáldskapur heldur eitthvað sem allir gætu sett saman. Á seinni árum hefur orðið fengið hlutlausa merkingu, bókmenntalegt hugtak um hóp skálda á ákveðnu tímaskeiði í íslenskum bókmenntum og ljóð þeirra kölluð atómljóð. Nokkur atómskáld Einar Bragi Hannes Sigfússon Jón Óskar Jónas Svafár Sigfús Daðason Stefán Hörður Grímsson Steinn Steinarr
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=