HÖNNUN KÖNNUN

9 Blogg Hugmyndabanki getur líka verið á rafrænu formi. Útbúa má svæði þar sem nemendur safna saman myndefni og hugleiðingum í persónulegar síður, einskonar rafræna dagbók og möppur með flokkuðu efni, þar sem nemendur geyma myndir sem vekja áhuga þeirra og tengjast hönnunarkennslunni. Þar mætti einnig skrifa hugleiðingar um verkefnin og starfið. Auk þess gefur blogg færi á samtali nemenda um t.d. menningu, viðburði og málefni hönnunar og lista á líðandi stundu. Með því að útbúa bekkjarsvæði og blogg gefst líka tækifæri á að kenna vinnubrögð í tölvum og æskilega hegðun á veraldarvefnum. Vefsíða Vinna má verkefnin með það í huga að láta nemendur setja þau upp á vefsíðu eða samskiptamiðli, s.s. bekkjarblogg-síðu eða facebook-síðu jafnóðum. Tímarit Einnig má sjá fyrir sér að verkefnin séu unnin með uppsetningu bekkjarblaðs í huga. Verkefnum annarinnar mætti þá skipta niður á hópa til umfjöllunar og vinnslu og dreifast á hópa sem ynnu koll af kolli að grind blaðsins eftir því sem verkefnum (efni blaðsins) fjölgaði. Slíkt fyrirkomulag gæfi kennara færi á að kenna smærri hópum í einu. Tiltekinn hópur færi þá í eins konar aukalotu undir handleiðslu kennara. Blaðagrindin rúllaði svo milli hópa í takt við verkefnin önnina á enda og þar til blaðið að lokum væri tilbúið. Hver nemandi gæti þá t.d. fengið það einstaklingsverkefni að setja upp og hanna sína forsíðu á blaðið með sinni hugmynd að nafni auk þess sem verkefni annarinnar sem sýnd væru í blaðinu væru mörg hver einstaklingsverkefni. Uppsetning blaðs eða tímarits er talsvert erfiðara verkefni en blogg- eða facebook- færslur. Ef hópur stendur vel að vígi tæknilega má til dæmis hugsa sér að hver nemandi setji saman sitt eigið blað með sínum persónulegu verkefnum, skissum og hugmyndum sem lokaverkefni áfanga. Greinargerðir Í æfingum kennsluefnisins er stundum gert ráð fyrir greinargerðum, hugleiðingum eða spurningalistar lagðir fyrir nemendur. Skal ítrekað að slík verkefni eru tilvalin heimaverkefni sem hægt er að skila í tölvupósti, inn á sameiginlegt vefsvæði eða áðurnefnt bekkjarblogg.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=