HÖNNUN KÖNNUN
8 Hugmyndir aðskipulagi Heimavinna Eitt af því sem einkennt hefur myndmenntakennslu og kennslu í grafískri hönnun á grunnskólastigi er að í þessum fögum er lítil sem engin heimavinna. Illmögulegt er að krefja nemendur um slíkt þegar þeir t.d. hafa ekki aðgang að forritum nema í skólanum. Tímafjöldi þessara faga er hins vegar af skornum skammti en efnislega er af nógu að taka. Aukaverkefni af því tagi sem hér að neðan verða nefnd, s.s. vefsíðufærslur, greinargerðir, skissubók og skissumöppur eru því tilvaldar leiðir til að innleiða létta og skemmtilega heimavinnu. Bekkjarblogg og vefsíðugerð eru verkefni sem byggja má á hugbúnaði sem fæst ókeypis á netinu og sem flestir nemendur hafa aðgang að. Það eru því tilvalin verkefni af því að þau eru óbein kennsla í upplýsingatæknimennt og hönnun og geta stuðlað að félagslegri tengingu nemenda utan skólatíma. Kennarar geta stýrt umræðum og sett fram óbein verkefni sem felast í athugun, umræðum og skoðanaskiptum um ýmis málefni tengd hönnunarnáminu, hönnun almennt og því sem efst er á baugi í menningu og listum. Þess háttar verkefni geta þannig stuðlað að, ef vel tekst til, auknu næmi og skilningi nemenda fyrir umhverfi sínu, eigin hönnun og annarra sem yfirleitt tekur teiknara áraraðir að þróa með sér. Umræða um menningu og listir er ekki síður nauðsynleg í hönnun en tæknileg kennsla og getur með þessu móti, að miklu leyti átt sér stað utan skólastofunnar og þeirra fáu tíma sem faginu eru ætlaðir. Mappa Allt sem nemendur gera, merkilegt eða ómerkilegt, fullkomin sem og ófullkomin verk á að geyma í möppu. Möppurnar útbúa nemendur sjálfir og er tilvalið að skoða lógó og leturgerðir og láta nemendur svo merkja möppuna sína með nafni sem þeir hafa útfært á þann hátt. Mikilvægt er að venja nemendur á að bera virðingu fyrir krassi, kroti og tilraunum jafnt sem fullbúnum verkum og að geyma alla hluti í möppunni sinni. Tiltektir geta átt sér stað við annarlok. Skissubók – dagbók Mælt er með því að nemendur fái úthlutað teiknibók sem nýst getur sem hálft í hvoru, dagbók eða skissubók, sem námstæki. Venja þarf nemendur á að skissa á pappír og hripa hugmyndir sínar niður, hvort sem það er á myndrænu formi eða skriflegu. Með því að kenna nemendum að halda hugmyndum sínum til haga, flokka þær og koma skipulagi á þær þjálfast ákveðin vinnubrögð sem eru gott veganesti út í lífið hvort sem nemendur hyggjast leggja stund á hönnun eður ei. Þess háttar vinnubrögð nýtast öllum við allt nám og síðar í lífinu. Með því að halda hugmyndavinnu til haga átta nemendur sig líka á því að hugmyndavinna er vinna. Koma verður hugmyndum á fast form svo að þær öðlist líf, af því að minnið er skeikult.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=