HÖNNUN KÖNNUN

4 7 Æfing 17 – Hönnun og samfélag Origami · hönnun fjöldalistaverks · þemadagar · fjáröflun Tímalengd: 80-160 mínútur + heimavinna Origami- pappírsgerðarlistin á rætur sínar að rekja til Japans. Orðið sjálft er samsett úr japönsku orðunum ori- (að brjóta) og kami (pappír). Listin er í því fólgin að brjóta pappír og forma úr honum ýmis konar þrívíð form án þess að nota skæri, lím eða nokkur verkfæri önnur en hendurnar. Aðferð: Ótal margar leiðir er hægt að fara í þessu verkefni sem er á mörkum hönnunar og listar. Hægt er að hanna árstíðatengd listaverk s.s. tengt jólum eða páskum, þemastarfi eða fjáröflun. Eins er hægt að gera hóplistaverk með origami-aðferð til að vekja athygli á endurnýtingu eða sjálfbærni (og nota þá endurnýttan pappír, t.d. úr tímaritum og dagblöðum). Aðferð þessa má jafnvel nota til að koma pólitískum skoðunum á framfæri út í samfélagið, í mótmælaskyni eða bara til að stuðla að sameiningu og bræðralagi á táknrænan hátt innan skóla þar sem framlag hvers og eins skiptir máli o.s.fr.v. Hér er því um afar fjölnota verkefni að ræða. Aðferðir origami eru einfaldar og efniviðurinn bæði ódýr og nærtækur. Hægt er að vinna að einstaklingsverkefnum eða stórum hópverkefnum en áhrif slíks hópeflis í bland við táknræna merkingu og listræna framsetningu getur komið verulega á óvart. Verða nokkrar leiðir útskýrðar hér að neðan til glöggvunar en finna má origami nýtt samhengi, við t.d. fréttir og líðandi stundu með lítilli fyrirhöfn og slá má tvær flugur í einu höggi með aðferðinni. Árstíðabundið origami: Kennarar halda stutta kynningu á fyrirbærinu, (e.t.v. 3-5 mínútna myndasýningu af veraldarvef). Að því loknu er nemendum skipt í hópa. Hóparnir eiga að ræða innbyrðis hvernig verk þeir myndu vilja gera t.d. í tilefni jóla eða páska, hvar þeir sjái það fyrir sér staðsett, hvernig það eigi að líta út og hvaða origamibrot sé viðeigandi, tengt árstíð eða táknrænni tengingu. Nemendur huga að litafræðilegum tengingum, huga að formi origami og táknrænni merkingu brots en jafnframt heildarlögun verks. Þeir skissa upp útlit og lögun listaverks eða setja hugmyndir sínar fram í punktaformi. Hægt er að vinna að mörgum smærri verkefnum eða hafa hópakynningu þar sem kosin er vinsælasta hugmyndin, (15-25 mín). Að því búnu er hafist handa (með endurunnu efni sem kennari hefur þá þegar útvegað) við að útbúa listaverkið. Leita má samstarfs við list- og verkgreinar sem og aðrar greinar og fá sem flesta með í verkið. Halda má áfram vinnu að verkinu í formi heimavinnu og verja þá frekar tíma í uppsetningu verks í tíma með kennara. Listrænt fjáröflunar- eða ádeiluorigami: Origami er tilvalin leið til að slá nokkrar flugur í einu höggi, t.d. þegar um fjáröflun er að ræða. Þá má hanna og setja upp fjöldalistaverk úr origami til styrktar málefni sem seldir eru partar úr. Bæði geta origami-brotin sjálf haft táknræna merkingu, eins og t.d. trönubrotið eða heildarútlit verksins. Um leið má vinna út frá sjálfbærni og endurvinna pappír úr glanstímaritum sem svo getur aftur haft gagnrýninn undirtón. Þannig getur origami-verk haft gagnrýninn undirtón eða verið gert sem ádeila. Grunnþættir: Læsi · sköpun · lýðræði og mannréttindi · heilbrigði og velferð · jafnrétti · sjálfbærni Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · myndmennt · lífsleikni · saga · stærðfræði · eðlisfræði Ávinningur: Æfingin þjálfar stærðfræðilega nákvæmni, virkjar hugmyndaflug og táknræna framsetningu. Hún þjálfar lausnaleit og hamskipti tvívíðs efnis yfir í þrívítt, einstaklingsframtak yfir í hópefli. Æfingin kannar mörk hönnunar og listar. Hún eflir tjáningu og lýðræðisleg vinnubrög. Æfingin stuðlar að jákvæðu sjálfsmati.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=