HÖNNUN KÖNNUN

3 3 Æfing 9 – Leturgerð Týpógrafía · mynd og tilfinning · áróður · veggspjald Tímalengd: 80-160 mínútur + heimavinna Efnistök: Í þessu verkefni er hægt að fara ýmsar leiðir og ýmislegt í heimi unglinga sem gæti hentað til að vinna með í veggspjaldagerð. Hér verða nefnd nokkur dæmi um nálgun sem hefur aðallega tengingu við heilbrigði og velferð og mannréttindi og lýðræði. Hægt er að skoða netið og vinna út frá t.d. varnaðarorðum SAFT um netið og netnotkun unglinga. Eins er hægt að skoða facebook og athugasemdakerfi ýmissa veftímarita og gera veggspjald sem vinnur gegn neikvæðri og ómálefnalegri umræðu. 1. Hægt er að styðjast við Olweusaráætlunina gegn einelti (eins og í æfingu nr. 12) og fá nemendur til að vinna veggspjald gegn einelti á áhugaverðan og áhrifaríkan hátt þar sem lögð er áhersla á myndræna framsetningu niðurstaðna og/eða tölfræði. Önnur klassísk nálgun er að gera veggspjald um skaðsemi vímuefna. Hægt er að vinna verkefnin út frá jákvæðum og neikvæðum áróðri. Skoða má frásögnina í þessu samhengi, notkun boðháttar og áhrifa þess að segja annað hvort „þú mátt“ eða „þú mátt ekki“ og því hvort hægt sé að beita áróðri á „lúmskari“ hátt, skoða sjónarhornið sem fælist t.d. í því að nálgast verkefnið út frá annað hvort geranda eða þolanda. Auk þess má skoða áhrifamátt grafíkur og myndvinnslunnar sjálfrar (stórt, lítið, hvað sagt er í texta og hvað ekki o.s.frv.). Hvetja skal nemendur til að mynda sér skoðun á því með umræðum hvað líklegt sé til árangurs og skoða og átta sig á öðrum aðferðum grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar og sálfræði til að hafa áhrif á skoðanir og langanir fólks. (Auglýsingaherferðir fyrirtækja á borð við Benetton eru gott dæmi um slíka nálgun.) 2. Önnur leið er að vinna með eflingu sjálfsmyndar og láta nemendur hanna veggspjald með skilaboðum og viðeigandi umgjörð á glærur sem hengdar eru upp t.d. á speglum salerna í skólanum. Sem dæmi má nefna setningar á borð við: „Þú ert fín/fínn eins og þú ert“ eða „Þín innri fegurð verður sýnileg þegar þú brosir!“. Áhugavert gæti verið að vinna bara með svartan lit, letur og mynd (hér má taka leturmyndagerð skrefi lengra (gott verkefni á eftir mónógrami). Nemendur geta auk leiks með letur leikið sér að spegilmyndinni og þátttöku áhorfenda í verkinu. Eins má skoða aðrar aðferðir við framsetningu og gefa nemendum lausan tauminn. 3. Enn önnur leið með áherslu á myndmál er að kanna tengingar t.d. listasögu eða pólitíkur við auglýsingar og veggspjöld gerð í auglýsingarskyni og birtingarform þess hjá t.d. fataframleiðslufyrirtækjum eins og hinu ítalska Benetton. Það sem þessi æfing ætti að kenna nemendum er sú viðleitni grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar að reyna alltaf að koma á óvart og sýna hlutina í nýju ljósi eða óvæntu samhengi. Varla þarf að taka fram að öll veggspjöld sama hvort um netið, facebook, einelti, vímuefni eða sjálfsmynd er að ræða eiga að stuðla að uppbyggilegum og heilbrigðum venjum og samskiptum, jafnvel þótt hlutirnir séu skoðaðir út frá öfugum formerkjum. Grunnþættir: Læsi · sköpun · lýðræði og mannréttindi · heilbrigði og velferð · jafnrétti · sjálfbærni Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · leiklist · lífsleikni · samfélagsfræði · listasaga · myndmennt Ávinningur: Nemendur þjálfast í meðferð mynda og texta og mögulegs áhrifamáttar slíks sambands. Æfingin þjálfar ímyndunarafl, greinandi og frumlega hugsun og framsetningu og stuðlar að myndlæsi. Æfingin hefur samfélagsleg góð áhrif og stuðlar að jákvæðri sjálfmynd og umburðarlyndi og gagnrýninni hugsun. GÁTA: Hópur ræningja var að hlaða sendiferðabíl með sjónvarpstækjum sem þeir voru að stela úr vöruhúsi þegar þeir heyrðu skyndilega í sírenum lögreglubíls sem nálgaðist. Þeir gátu ekki forðað sér eða flúið lögregluna en sluppu samt. Hvernig fóru þeir að því? SVAR: Þeir báru allt góssið inn aftur og létu sem þeir væru að losa sendiferðabílinn en ekki að lesta hann!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=