HÖNNUN KÖNNUN

31 Æfing 8 – Umbrot Uppsetning bæklings (t.d. fyrrnefnd leikskrá úr æfingu 7) Tímalengd: 80-160 mínútur + heimavinna Aðferð: Verkefnið má vinna í samhengi við uppfærslu í skólanum eins og áður segir. Fara má í gegnum tæknilega þætti við gerð bæklings. Mismunandi format/brot rætt og tenging þess við innihald bæklings. (Din stærðir kynntar.) Eins er hægt að beina sjónum að leturmeðferð, læsileika, vægi upplýsinga og tengslum við stærð og staðsetningu. Eins má gefa nemendum frjálst val um efni að eigin vali, t.d. uppsetningu (ritgerðar)-verkefnis í öðru fagi. Nemendur hanna svo bækling eða einblöðung og rökstyðja lögun og lengd. Vert er að huga að umfangi og dreifingu prentefnis í samhengi við sjálfbærni og atvinnulíf. Þetta má framkvæma í formi athugunar sem nemendur gera heima fyrir, t.d. með því að safna á einni viku því efni sem berst inn á heimili þeirra að húsráðendum forspurðum. Nemendur geta svo í formi umræðu, skriflegrar greinargerðar eða veffærslu tjáð sig um málið og tekið til þess afstöðu. Nemendur velta fyrir sér eftirfarandi spurningum: 1 . Hvað komu ca. margir bæklingar/blöð inn um lúguna á heimili þínu að þér og foreldrum þínum forspurðum þessa vikuna? Hvað vó efnið í grömmum talið? 2. Hvernig efni var það? 3. Var efnið skoðað eða var því fleygt í ruslið óskoðuðu? 4. Hafa auglýsingabæklingar af þessu tagi áhif á þig? Ef svo er hvers konar áhrif? 5. Hvort heldur þú að prentun og dreifing prentefnis sem fer inn á öll heimili hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á ímynd fyrirtækis? 6. Hvað heldur þú að skapist mörg störf í kringum útgáfu af þessi tagi? 7. Er það jákvætt eða neikvætt? 8. Finnst þér að fólk eigi að geta ákveðið sjálft hvort það þiggur eða afþakkar efni af þessu tagi? 9. Eiga fyrirtæki að hafa frjálst val um framleiðslu slíks efnis? 10. Ætti að krefja fyrirtæki sem framleiða mikið af auglýsingaefni sem borið er í hús að íbúum forspurðum um t.d. að greiða sorphirðu síns eigin efnis eða um framlag til samfélagslegrar ábyrgðar af einhverju tagi í staðinn? 11. Hvers konar verkefni í samfélagslegri ábyrgð dettur þér í hug að krefja slík fyrirtæki um? 12. Hvaða aðrar leiðir til að auglýsa vöru en prentun bæklinga dettur þér í hug? Bjargir: Skissubækur, skriffæri, bókasafn, bæklingar og blöð, veraldarvefur, tölvur og teikniforrit, reglustika, hnífar, skæri, spreylím. Grunnþættir: Læsi · sköpun · lýðræði og mannréttindi · heilbrigði og velferð · sjálfbærni Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · myndmennt · leiklist · lífsleikni · saga · listasaga · upplýsingatækni Ávinningur: Æfingin þjálfar hugmyndavinnu og færni í notkun umbrotsforrita, öflun og úrvinnslu upplýsinga. Æfingin þjálfar hlustun og túlkun fíngerðra blæbrigða, myndlæsi og tilfinningagreind, eflir sjálfsmynd og sjálfstæð vinnubrögð, hugvitssemi, útsjónarsemi, skipulagsfærni og nákvæmni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=