HÖNNUN KÖNNUN

2 8 Æfing 7 – Útlitshönnun Hönnun útlits · merki og/eða grafík (t.d. tengt uppfærslu í skóla, leikskrá + veggspjald) Tímalengd: 240-400 mínútur + heimavinna Aðferð: Tilvalið er að vinna að gerð merkis/útlits fyrir leikskrá tengda leikverki/söngleik /dansverki/tónleikum sem taka skal til sýninga eða flytja á í skólanum. Slík verkefni ná yfirleitt langt út fyrir skólastofuna og geta eflt ábyrgðartilfinningu, kveikt frumkvæði og áhuga. Verkefnið hefur yfir sér raunveruleikablæ, (getur endað sem raunveruleg leikskrá ef vel tekst til, ekki bara „óraunverulegt“ skólaverkefni). Reyna ætti að halda verkefni sem leik og gera það ekki of alvarlegt. Eins þarf alltaf í slíkum verkefnum að gæta hagsmuna nemenda í hönnun, passa að verkefnið verði ekki hlutlaus þjónn t.d. leiklistar- eða dansverks. Nemendur í hönnun/myndmennt verða að fá að vera með í verkefninu á forsendum hönnunar. 1. HÓPUMRÆÐUR/HUGARKORT: Umræður um viðfangsefni, útlitið sem hanna á (mögulega endurhönnun heimsfrægs merkis/útlits), boðskap og stemningu. Ræðið hvað merkið/útlitið þarf að segja annars vegar um verkið og hins vegar um uppfærsluna? Mikilvægt er að nemendur vinni t.d. hugarkort eða atriðalista meðan á umræðum stendur í skissubækur sínar. 2. EINSTAKLINGSVINNA: Nemendur skissa og hanna merki og/eða grafískt útlit sem hægt verður að nota við gerð markaðsefnis fyrir fyrirhugaða sýningu. Skissið á blað og/eða í tölvu. Skannið inn skissur ef þarf til að vinna með á vektorformi. Merki/útlit fullunnið í teikniforritum. 3. Gera má kröfu um að nemendur sýni stig af stigi þróun útlits/vinnunnar þangað til endanlegt útlit er tilbúið. Þurfi t.d. að skila sýnishornum af útliti í „pósitívri“ og „negatívri“ mynd, frumskissu og endanlegu merki til að sýna að þeir hafi skoðað margar útfærsluleiðir og möguleika. 4. EINSTAKLINGSVINNA: Nemendur fullvinna merki í indesign eða illustrator eða öðrum sambærilegum forritum og skoða útfærslumöguleika s.s. svart/hvítt/lit, negatívt og pósitívt. 5. Uppsetning merkja á vef/bloggi/tímariti (rafrænt/prenti). Árangursrík aðferð til yfirferðar er að safna merkjum í rafræna möppu og opna í skjávarpa. Vistvænar aðferðir ætti að reyna að nýta sem mest í áfanganum til að sporna gegn óþarfa útprentunum og pappírssóun. Bjargir: Pappír, lím, ljósritunarvél, myndavél, tölvur og teikniforrit, prentari, blýantar, strokleður, skæri, bæklingar og tímarit, eldra efni tengt leik-, dans- og tónlistarsýningum við skólann. Grunnþættir: Læsi · sköpun · lýðræði og mannréttindi · heilbrigði og velferð · sjálfbærni Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · myndmennt · leiklist · lífsleikni · saga · listasaga · upplýsingatækni Ávinningur: Æfingin þjálfar skissugerð og hugmyndavinnu, þjálfar nemendur í notkun teikniforrita og í upplýsingaöflun. Æfingin eflir hlustun og túlkun fíngerðra blæbrigða, þjálfar myndlæsi og tilfinningagreind, eflir sjálfsmynd nemenda og þjálfar sjálfstæð vinnubrögð, hugvitssemi og skipulagsfærni. Hún eflir ímyndunarafl og hugmyndaflug og yfirfærslu hugmynda svo eitthvað sé nefnt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=