HÖNNUN KÖNNUN

2 5 Æfing 6 – Hönnun merkis og bréfsefnis Tímalengd: 160-320 mínútur + heimavinna Aðferð: Frjáls einstaklingsæfing þar sem hægt er að vinna með t.d. þrjú mismunandi fyrirtæki/stofnanir með mismunandi einkenni. Hægt er að nefna raunveruleg fyrirtæki/stofnanir en þá felst verkefnið í endurhönnun merkis. Annar útfærslumöguleiki er að nefna bara eðli starfseminnar sem um ræðir og gefa þá nemendum færi á að gefa fyrirtækjunum viðeigandi nafn. Aðalatriðið er að fyrirtækin kalli á ólíka nálgun í stíl og inntaki. (Hægt er að láta nemendur gera merki fyrir öll þrjú fyrirtækin eða velja eitt af þeim, allt eftir tíma og áherslum.) Fyrirtækin sem áhugavert væri að kljást við væru t.d.: Rafrænt gagnasafn · endurvinnslustöð · grunnskóli · sjónvarpsstöð · líkamsræktarstöð · heilsulaug · verktakafyrirtæki · veitingarekstur · safn · verslun · fiskvinnslufyrirtæki · framleiðslufyrirtæki o.s.frv. Verkefnið býður upp á þann möguleika að skoða sögu íslensks iðnaðar og framleiðslu og velta ýmsu upp. Til dæmis má þrengja hönnun matvælaframleiðslu niður í vatnsátöppunarfyrirtæki til að að koma af stað umræðu um þjóðareign þar sem hugtakið þjóðareign er skoðað og greint og afstaða tekin til slíkra mála. Einnig má nálgast merkjagerð út frá umræðum um framleiðslu og stöðu endurvinnslu og sjálfbærni á Íslandi. Jafnframt má tengja hönnun merkis umræðum um menningar- og markaðsmál með umfjöllun um höfundarrétt o.s.frv. Hver nemandi skal svo í stuttri greinargerð með merki og skissum af merki, fjalla um vinnuferlið og svara eftirfarandi spurningum: 1. Hvernig merki er um að ræða? Lýstu því í stuttu máli. (Tegund merkis: týpógrafískt (þ.e. byggt á letri) eða tákn eða bæði og þá tákn fyrir hvað) 2. Hefur það listfræðilega eða sögulega tengingu eða aðra tengingu? 3. Hvernig gekk þér að finna hugmynd og skissa? 4. Hvar leitaðir þú helst fanga í hugmyndavinnunni? 5. Hvernig gekk þér að útfæra hugmynd þína? (tæknilega) 6. Þarft þú að æfa þig í einhverju? Spurningalistanum má breyta en hann er byggður á DBAE – listsköpun, listasögu, listgagnrýni og fagurfræði. Greinargerðina má vinna heima, t.d. á bloggi/samtalssíðu. Vinna við gerð merkis er mikilvægt tækifæri til að huga að hugmyndavinnu og efnislegri skrásetningu og varðveislu hennar í skissubókum og er mælt með því að ítrekað verði fyrir nemendum að hugmyndavinnan er metin rétt eins og virkni í tímum og endanleg niðurstaða verka. Bjargir: Skriffæri, blöð, skissubækur, tölvur og teikniforrit, bækur, veraldarvefurinn, virkt hugmyndaflug og ímyndunarafl. Grunnþættir: Læsi · sköpun · heilbrigði og velferð · lýðræði og mannréttindi · sjálfbærni Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · myndmennt · lífsleikni · saga · listasaga · landafræði · upplýsingatækni Ávinningur: Æfingin þjálfar skissugerð, hugmyndavinnu og teikningu, notkun teikniforrita, upplýsingaöflun, túlkun og næmi fyrir fíngerðum en þýðingarmiklum blæbrigðum. Hún þjálfar myndlæsi, táknlæsi og tilfinningagreind, eflir sjálfsmynd nemenda og þjálfar sjálfstæð vinnubrögð. Æfingin eflir ímyndunarafl og hugmyndaflug og yfirfærslu hugmynda svo e-ð sé nefnt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=